Barnaverndaryfirvöld eru alltaf milli steins og sleggju!

Það er ekki einfalt fyrir barnaverndaryfirvöld að ganga hinn gullna meðalveg þegar tekist er við erfið barnaverndarmál þar sem hagsmunir barnsins skulu hafðir að leiðarljósi.  Barnaverndaryfirvöld eru mjög berskjölduð fyrir gagnrýni þar sem þau geta ekki varist ásökunum á opinberum vettvangi með rökstuðningi fyrir einstökum ákvörðunum sínum. Þau eru bundinn trúnaði.

Ákvarðanir barnaverndayfirvalda eru ekki geðþóttaákvarðanir. Þær eru teknar í kjölfar ítarlegra kannanna á högum barna og krafa gerð um vandaðan rökstuðning sem þó eru eðli málsins vegna ekki birtir á opinberum vettvangi.

Ég hef í umræðunni nú um afskipti og meint afskiptaleysi barnaverndaryfirvalda enn einu sinni heyrt harkalega gagnrýni á barnaverndaryfirvöld - gagnrýni sem að mínu mati byggir oft á þekkingarleysi og hleypidómum.

Málið er nefnilega að barnaverndarnefndir eru ætíð milli steins og sleggju í barnaverndarmálum.

Starf barnaverndaryfirvalda hefur alla tíð verið erfitt og það verður enn erfiðara í því harða umhverfi fíkniefnaneyslu þar sem fíklar sem jafnframt eru foreldrar - fjölgar sífellt!

En við verðum - hvort sem okkur líkar betur eða verr - að treysta á dómgreind barnaverndaryfirvalda - jafnvel þótt okkur finnist aðgerðir eða aðgerðarleysi þeirra stundum ekki réttmæt.

PS.

Mál það sem varð upphafi að umfjöllun fjölmiðla um barnaverndaryfirvöld og fíkla er nú komið í réttan farveg. Málið er nú til skoðunar hjá Barnaverndarstofu - sjá tengil á frétt hér!


mbl.is Um 20 fíklar látist frá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæta Guðlaug!

Þú mátt ekki skilja mig þannig að ég hafi verið að saka Ingibjörgu um þekkingarleysi og hleypidóma! Því fer fjarri!

Ég er ekki í stöðu til að leggja mat á það tiltekna mál - frekar en svo mörg önnur!

Tilefnið voru umræður á kaffihúsi þar sem ég varð vitni að þvílíkum sleggjudómum - og ekki í fyrsta sinn!

Það sem ég er hins vegar að undirstrika er þetta varnarleysi barnaverndaryfirvald í opinberri umræðu - og þessi erfiða staða sem bæði við - og barnaverndaryfirvöld eru í - vegna eðli málanna!

Hallur Magnússon, 21.5.2008 kl. 16:08

2 identicon

Ég myndi minnstar áhyggjur hafa af barnaverndarkerfinu eða starfsmönnum þess til að bera hönd yfir höfuð sér í þessu máli. Í hvers konar aðstöðu eru viðkomandi drengir til að bera hönd yfir höfuð sér ef barnaverndarkerfið hefur brugðist í þessu tilfelli?

Það er rétt hjá þér að barnavernd ber að starfa þannig að hún geti rökstutt vinnubrögð sín en það virðist ekki vera reyndin hér. Og er oft ekki reyndin einmitt af því að þeir aðilar sem barnavernd á að vera til fyrir eru sjaldnast í aðstöðu til að gera eitthvað þegar þessi stofnun bregst skyldu sinni.

Í þeim fáu tilvikum þegar einhver er til staðar til að mótmæla fátæklegum vinnubrögðum þá eru þeir afgreiddir alla jafna eins og Breiðavíkurdrengirnir á sínum tíma: þetta er jú fagfólk og því nokkuð öruggt að flestar umkvartanir eru einungis hugarburður frá vanstilltu fólki, því það er víst sá hluti þjóðfélagsins sem þetta óskeikula fólk er að fást við.

 Eða hvað?

KK (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 16:51

3 Smámynd: Riddarinn

Það er nú einfaldlega þannig með þessa Barnavernd að hún athugar ekki nema part af þeim málum sem koma inn á borð og það þekki ég að eigin raun.

Þegar maður spyr svo Barnavernd hvort málin hafi verið tekin fyrir  og athugað þá er bara sagt að það megi ekki gefa neitt upp eða segja nokkuð og þetta er jafnvél þó verið sé að kæra meðferð á mínu eigin barni.

Þetta þekki ég af eigin reynslu.

Það er einfalt að skjóta sér undan verkefnum ef engin má fylgjast með því hvor nokkuð hafi verið gert í málinu og enginn fylgist með eða er til staðar til þess að sjá um að hlutirnir séu gerðir og gerðir rétt.

Það er löngu ljóst að það virðist ekkert gerast hér á landi fyrr en einhver er drepinn eða lemstraður og það kemur upp að málið hafi verið kært áður en ekkert hafi verið gert,þá hitnar í kolunum og handvömmin kemur í ljós.

En þetta málefni er líka fjársvellt og alltof fáir sem eru til staðar til að sjá um þessi mál yfir höfuð.

Riddarinn , 21.5.2008 kl. 20:35

4 Smámynd: Kolgrima

Mér finnst þetta ein óhugnanlegasta setning sem ég hef séð lengi: "En við verðum - hvort sem okkur líkar betur eða verr - að treysta á dómgreind barnaverndaryfirvalda..." 

Kolgrima, 21.5.2008 kl. 21:30

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæta Kolgríma.

Þér kann að finnast þetta óhugnarleg setning. En þetta er sú staða sem við erum í hvort sem okkur líkar betur eður verr. Við getum ekki annað en treyst á dómgreind barnaverndaryfirvalda og vonað að hún sé í lagi.

Minni hins vegar á að þegar rætt er um barnaverndaryfirvöld þá er ekki verið að ræða um einstakar barnaverndarnefndir heldur barnaverndaryfirvöld í heild. Kerfið er vífeðmara en það og ákveðnir öryggisventlar - þótt aldrei sé unnt að koma í veg fyrir mistök í barnaverndarmálum - frekar en í öðrum mannlegum málum.

Barnaverndarstofa er hluti barnaverndaryfirvalda. Í því máli sem sem varð kveikjan að þessari umferð umræðunnar þá er málið einmitt komið inn á borð Barnaverndarstofu.

Hvað getum við gert annað en að treysta á dómgreind barnaverndaryfirvalda?  Hvaða önnur úrræði höfum við? Hver annar ætti að taka ákvarðanir í barnaverndarmálum? Heldur einhver að við yrðum þá ekki - "hvort sem okkur líkar betur eða verr - að treysta á dómgreind" þessa aðila?

Teljið þið að dómstólaleiðin sé vænlegri?

... og enn annað.  Telur einhver að betri árangur náist ef einstök barnaverndarmál eru unnin fyrir opnum tjöldum þar sem allir geta fylgst með mannlegum harmleikjum einstakra fjölskyldna sé betri leið?

Telur einhver að hagsmunum barna almennt sé betur borgið þannig?

Kjarni málsins er einmitt:

Barnaverndaryfirvöld eru alltaf milli steins og sleggju!

Hallur Magnússon, 21.5.2008 kl. 21:50

6 Smámynd: Hallur Magnússon

PS.

Gleymdi að minnast á umboðsmann barna sem getur talist hluti öryggiskerfisins í barnaverndarmálum. Þangað er unnt að skjóta málum þar sem talið er að fyrirkomulag barnaverndarmála sé ekki í lagi.

Hallur Magnússon, 21.5.2008 kl. 21:54

7 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég þekki nokkuð af fólki í barnaverndarnefnum.Það leggur sig fram af alúð og heiðarleika,sama gildir um umboðsmann barna.Öll mannanna verk eru gagnrýnisverð og öllum getur yfirsést ekki síst í þessum viðkvæmu og flóknu málum.Ég held af eigin reynslu þó ekki sé hún mikil í þessum málaflokki,að fyrst og fremmst vanti fleira starfsfólk með góða fagmentun.Í þessum málaflokki má ekki spara fé hjá viðkomandi sveitafélögum,það bitnar á börnum og viðkomandi aðstandendum þeirra.Mál þessi taka yfirleitt of langan tíma,þau eiga að hafa forgangsrétt í öllum tilvikum.

Kristján Pétursson, 21.5.2008 kl. 22:19

8 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Kristján!

Ég er sammála þér í að það vantar fjármagn og fleira starfsfólk með góða fagmenntun til að takast á við þennan viðkvæma málaflokk. Umfang alvarlegara mála hefur verið að aukast ekki hvað síst vegna stóraukinnar harðrar fíkniefnaneyslu og aukningu foreldra sem eru illa staddir fíklar - eins og fram hefur komið að undanförnu.

Málið snýst ekki einungis um að "forða börnum frá foreldrum sínum" heldur og jafnvel miklu frekar að veita foreldrum í vanda öflugan, faglegan stuðning til að geta sinnt börnunum sínum. Það er dýrt!

Vonandi verður umræðan nú til þess að opna augu þeirra er halda um budduna svo þeir auki fjárveitingar til barnaverndarmála, sem síðan verði til þess að fjölga hæfu, vel menntuðu fólki innan málaflokksins - samhliða því að verkferlar verði í stöðugri endurskoðun. Börnin okkar eiga það skilið!

Hallur Magnússon, 22.5.2008 kl. 08:29

9 Smámynd: Atli Hermannsson.

Sú erfiða staða sem er í þessum málaflokki sýnir svo ekki verður um villst að forgangsröðunin og áherslurnar hjá okkur eru rangar. Það er kannski óvarlegt af mér að spyrða væntanlega komu flóttafólks við þessa umræðu. En það blastir við að á meðan 20 íslenskar mæður eru að gefast upp og deyja frá ungum börnum sínum, er verið að bjarga mæðrum með börn frá Írak og fá þær til að setjast hér að.

Atli Hermannsson., 22.5.2008 kl. 22:36

10 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Atli.

Ég efast um að þessar ógæfumæður sem urðu fíkninni svo illilega að bráð að þær létust frá börnum sínum og aðrar mæður í sömu sporum séu betur settar ef við tökum ekki við þessum ógæfusömu palestínsku ekkjum með börn sem eru strandaglópar í Írak og komast hvorgi lönd né strönd - nema að við eða önnur ríki taki við þeim sem flóttamönnum.

Ég tók þátt í því að taka á móti hópi flóttamanna til Hornafjarðar á sínum tíma - á sama tíma og við stóðum í stórræðum á öllum sviðum! Koma flóttamannanna dró ekki úr kraftinum á öðrum sviðum félagsþjónustunnar - heldur varð hún frekar til þess að styrkja samfélagsvitundina sem varð síðan til að styrkja Íslendinga sem áttu við vanda að stríða!

Mín skoðun er sú að ef við erum það harðbrjósta að við treystum okkur ekki til að taka á móti ekkjum með ung börn sem eru í slíkri hræðilegri stöðu sem palestínsku mæðurnar eru - þá erum við það harðbrjósta að við erum ekki reiðubúin til að veita okkar eigin löndum hjálparhönd!!!

Hallur Magnússon, 24.5.2008 kl. 00:25

11 Smámynd: Atli Hermannsson.

Sæll Hallur... þú mátt ekki misskilja mig. Ég er bara að benda á að við getum stundum litið okkur nær. Það hafa ungar mæður verið að deyja innan borgarmarkana og "kerfið" hefur ekki haft nein úrræði til að bjarga þeim sem manni svíður. Þá þarf að setja í forgang að stórauka eftirlit með innflutningi á eiturlyfjum og auka framlag til forvarna - til að koma kerfinu af hálfkák stiginu. 

Ég hef ekkert á móti því að erlendu fólki sé hjálpað nema síður sé. Það er t.d. bara í tilfellum eins og þar sem hörmungar hafa stungið sér niður og ríkisstjórn Íslands ákveður að senda 5 milljónir króna en ekki 50 sem ég skammast mín virkilega fyrir að vera Íslendingur.

Þá verður sú harða umræða sem verið hefur um innflytjendur vonandi til þess að hrista upp í kerfinu svo við getum staðið enn betur að málum. Ég var síðast í gær að vinna fyrir 28 ára Eþíópíu mann sem aðlagast hefur frábærlega og ekki gat maður annað en dáðst að nær lýtalausri íslenskunni eftir 7 ára dvöl.... góða helg. 

Atli Hermannsson., 24.5.2008 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband