Er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?

Gæti verið réttara og einfaldara að félagslegur stuðningur í húsnæðismálum verði ekki í formi styrkingu félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs sem gæti leitt til hallareksturs og gjaldþrots ef tekið er mið af sögunni, heldur gegnum húsnæðisbætur sem taka mið af stöðu fólks hverju sinni?  

Félagsmálaráðherra hefur nú gengið fram fyrir skjöldu og dregið úr þeim skaða sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra sköpuðu með ónákvæmum og ótímabærum yfirlýsingum um óskilgreinda framtíð Íbúðalánasjóðs.  Félagsmálaráðherra segist muni standa vörð um Íbúðalánasjóð og að sjóðurinn muni áfram veita landsmönnum um allt land almenn íbúðalán en án ríkisábyrgðar.

Þau lán munu óhjákvæmilega verða á hærri vöxtum en sambærileg lán eru með ríkisábyrgð. Það er hins vegar ekki aðalatriðið.  Það sem skiptir máli er að almenningur hafi rétt á slíkum lánum. Slíkur réttur er ekki til staðar hjá bönkunum, en ríkisvaldinum ber skylda til að tryggja almenningi aðgang að slíkum lánum dutlungalaust.  Ég treysti félagsmálaráðherra vel í að tryggja almannahagsmuni á þennan hátt.

En það er fleira sem félagsmálaráðherrann segir:

„Samhliða breytingunum gefst tækifæri til að styrkja verulega félagslega hluta sjóðsins eins og ég hef boðað. Slíkar félagslegar áherslur munu nýtast þeim sem verr standa á húsnæðismarkaði, fyrstu íbúðarkaupendum og tekjulágum.“

 

Þessi markmið eru göfug og jákvæð.

En er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs? Ég ætla ekki að útiloka það – en ég er ekki viss!

Hvað þýðir það að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?

Íbúðalánasjóður er fyrst og fremst sjálfbær samfélagslegur sjóður sem nær markmiðum sínum án beinna framlaga úr ríkissjóði.  Ríkisábyrgð sem ríkissjóður ber engan kostnað af og öflug skuldabréfaútgáfa sjóðsins tryggir sjóðnum bestu mögulegu lánakjör í  íslenskum verðtryggðum krónum. Þessir lágu vextir og sá tryggi réttur sem almenningur á hefur lengst af nýst best þeim sem eru í lægri tekjuhópunum.

Hinn sértæki félagslegi hluti Íbúðalánasjóðs í dag er fyrst og fremst félagsleg leiguíbúðalán sem eru niðurgreidd með beinum framlögum úr ríkissjóði, enda má Íbúðalánasjóður ekki niðurgreiða einn lánaflokk með tekjum af öðrum vegna lögbundinna  jafnræðissjónarmiða.

Ætlar ríkisstjórnin að auka slíkar niðurgreiðslur á vöxtum Íbúðalánasjóðs?  Er það styrking félagslega hluta sjóðsins?  Á að hverfa frá hinum sjálfbæra Íbúðalánasjóði yfir í ríkisrekna og ríkisstyrkta félagsmálastofnun?

Ég minni á að ein ástæða þess að Húsnæðisstofnun ríkisins var endurskipulögð með stofnun Íbúðalánasjóðs var sú staðreynd að hinn félagslegi Byggingasjóður verkamanna var gjörsamlega gjaldþrota, hafði étið upp allt eigið fé Byggingasjóðs ríkisins svo það stefndi í allsherjar gjaldþrot Húsnæðisstofnunar. Á núvirði var eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna neikvætt um rúmlega 24 milljarða – sem er meira en núverandi eigið fé Íbúðalánasjóðs.

Þessi staða var afleiðing þess kerfis þar sem ríkissjóður átti að niðurgreiða vexti félagslegra lána – en sveikst um það.

Er ekki einfaldara að allur Íbúðalánasjóður verði almennur og fjármagnaður án ríkisábyrgðar?

 

Er ekki réttara og einfaldara að félagslegur stuðningur í húsnæðismálum verði ekki  í formi styrkingu félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs sem gæti leitt til hallareksturs og gjaldþrots ef tekið er mið af sögunni, heldur gegnum húsnæðisbætur sem taka mið af stöðu fólks hverju sinni?

Þannig er rekstur Íbúðalánasjóðs tryggður öllum almenningi til hagsbóta en markmiðum um félagslega aðstoð næst á mun markvissari hátt!

Með slíkum húsnæðisbótum í stað niðurgreiðslu lána Íbúðalánasjóðs er jafnræði á mörgum sviðum náð.

Það ætti að vera jafnræði milli húsnæðisforma og slíkar bætur óháðar búsetuformi. Það á ekki að skipta máli hvort búið er í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búseturéttarhúsnæði. 

Það ætti að vera jafnræði milli lánveitenda. Það á heldur ekki að skipta máli hvort húsnæðið er fjármagnað af Íbúðalánasjóði  eða öðrum fjármálastofnunum. Húsnæðisbæturnar fara þangað sem þeirra er þörf.

Gæti þetta ekki verið vænlegri leið en „styrking félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs“?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að vanda vangaveltur verðugar umhugsunar.

Friðrik Jónsson (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 11:37

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Ég tek heilshugar undir með þér Hallur, sértækar lausnir og ríkisrekinn sjóður sem ekki er sjálfbær fer bara á einn veg.   Notum frekar skattkerfið og bótakerfið til að koma aðstoð til þeirra sem þurfa hennar með í stað þess að eyðileggja Íbúðalánasjóð.   Kratískar sérlausnir sniðnar að þrýstihópum og hagsmunasamtökum eiga að vera liðin tíð.

G. Valdimar Valdemarsson, 20.5.2008 kl. 11:43

3 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Ég hef áhyggjur af því að þessar breytingar veiki Íbúðalánasjóð sem verkfæri til þess að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni og hef heyrt það á fólki úti á landi að sumir óttast þessar breytingar mikið. En ég treysti Jóhönnu til að standa vörð um Íbúðalánasjóð eins og við framsóknarmenn höfum alla tíð gert og munum gera ...hins vegar hef ég takmarkað traust á félögum hennar í ríkisstjórninni.

Kristbjörg Þórisdóttir, 20.5.2008 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband