Íbúðalánasjóður sýnir styrk og ábyrgð - að venju!

Íbúðalánasjóður sýndi bæði styrk sinn og ábyrgð með hóflegri lækkun vaxta. Sjóðurinn vann að venju eftir þeim lögum og reglum sem honum eru settar. En sjóðurinn nýtti það svigrúm sem hann hefur nú vegna ábyrgrar og góðrar áhættustýringar undanfarin misseri til þess að  teygja sig eins og hann getur á móti Seðlabankanum og hávaxtastefnu hans.

Þetta er engin nýlunda. Þótt annað mætti halda af málflutningi andstæðinga Íbúðalánasjóðs gegnum tíðina, þá hefur stjórn Íbúðalánasjóðs alla tíð reynt að koma til móts við efnahagsstefnu stjórnvalda hverju sinni eftir því svigrúmi sem lagaramminn veitir og raunar tekið á sig ótrúlegar skerðingar í nafni baráttunnar gegn þenslu.

Má þar nefna lækkun lánshlutfalls og sú staðreynd að hámarkslán sjóðsins hefur ekki hækkað í mörg misseri, er nú enn 18 milljónir króna en ætti að vera 25 milljónir ef forsendur félagsmálaráðuneytis frá því 2005 um hámarkslán sjóðsins hefði staðið.

Nú loksins viðurkenna hagfræðingar úr röðum þeirra sem helst hafa gagnrýnt sjóðinn og stjórn hans - sem alltaf hafa fylgt þeim lögum og reglum sem sjóðnum eru settar - þessa staðreynd.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Ingólf Bender:

"Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir vaxtalækkun sjóðsins úr takti við við aðgerðir Seðlabankans. „Íbúðalánasjóður er ekki að spila með í þessari hagstjórn, þannig að út frá peningalegu aðhaldi myndi ég telja þetta neikvætt," segir Ingólfur. „En það má raunar segja sjóðnum til hróss að hann lækkaði vextina ekki eins mikið og hann hefði í rauninni getað."

Ingólfur bætir því við að ekki sé við sjóðinn að sakast heldur fremur löggjöf um sjóðinn. „Þetta kynni hins vegar að teljast jákvætt ef litið er til húsnæðismarkaðarins, þar sem lítið er um að vera um þessar mundir. "

Niðurlag Ingólfs er reyndar kjarni málsins og staðfesta orð Ingibjargar Þórðardóttur, formanns félags fasteignasala.

Íbúðalánasjóður er nauðsynlegur sjóður fyrir samfélagið, tryggir líf mikilvægs þáttar efnahagslífsins og veitir landsmönnum það öryggi sem þeir eiga rétt á í húsnæðismálum þótt það sé ekki alltaf í takt við ítrustu óskir misvitra forsvarsmanna í stjórnun efnahagsmála á Íslandi!

Sjá einnig: Íbúðalánasjóður lækkar vexti hóflega!


mbl.is Vaxtalækkunin sýnir styrk Íbúðalánasjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Sammála hverjum slætti á þínu lyklaborði núna, Hallur

Haraldur Bjarnason, 22.4.2008 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband