Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Skagamenn staðráðnir í að taka vel á móti flóttamönnum!

Það var ánægjulegt að hafa framsögu um góða reynslu Hornfirðinga af móttöku flóttamanna á fjölmennum upplýsingafundi á Akranesi í dag, en ég átti því láni að fagna að taka þátt í móttöku 17 flóttamanna frá Krajina héraði árið 2007 þegar ég var framkvæmdastjóri fræðslu- og fjölskylduskrifstofu Suðausturlands á Höfn þeim tíma. 

Það var mikill kraftur og jákvæðni í Skagamönnum sem greinilega ætla að leggja allt í að móttaka hóps palestínskra, einstæðra mæðra gangi vel og verði Akurnesingum til sóma. 

Málið er nefnilega að Akranes er afar ákjósanlegur staður til slíkrar móttöku með öflugt skólakerfi, allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla, öflugt heilbrigðiskerfi bæði heilsugæslu og sjúkrahús, faglega félagsþjónustu með vel menntuðu starfsfólki, öflugri Rauðakrossdeild og öflugt gestrisið samfélag sem oftast hefur staðið afar vel saman þegar á hefur þurft að halda.

Talið er að um 20 miljón manns séu á flótta í heiminum. Einungis hluti þeirra fær stöðu flóttamanns. Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanns hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðannna (UNHCR). Mjög lítill hluti þeirra sem fá stöðu flóttamanna eru metnir í það mikilli hættu að þeim sé ekki vært nema í þriðja landi.

Íslendingar hafa tekið á móti flóttamönnum úr þessum hópi.   Við höfum tekið á móti fjölskyldum af blönduðum hjónaböndum Serba og Króata sem á sínum tíma var hvorki vært í Serbíu né Króatíu. Við höfum tekið á móti fólki sem hefur sætt ofsóknum í Kosovo. Tekið á móti einstæðum mæðrum og börnum þeirra frá Kólumbíu, sem sætt hafa ofsóknum, líflátshótunum og jafnvel mannsali. Móttaka flóttafólks til Íslands er mannúðarstarf og við getum verið stolt af hverju einasta mannslifi sem hefur verið bjargað. 

Við getum líka verið stolt af því hvernig tekist hefur að aðlaga flóttamennina að íslensku samfélagi og gera þeim kleift að standa á eigin fótum. Ekki einn einasti flóttamaður sem ég veit að komið hefur til Íslands til að segja sig þar til sveitar. Þvert á móti. Fólkið vill hefja nýtt líf, vinna fyrir sér og sínum og taka virkan þátt í íslensku samfélagi.  

Við aðlögun flóttamannanna hefur verið fylgt þeirri ágætu meginreglu að  Róm ertu Rómverji og á  Íslandi ertu Íslendingur. Ætlir þú að taka virkan þátt í samfélaginu þarftu að spila eftir leikreglum þess og læra tungumál, siði og venjur. Á sama hátt hefur verið lagt að flóttamönnum á Íslandi að halda í sína menningu og kenna börnum sínum sitt upprunalega tungumál. Það er mjög mikilvæg fyrir hugtakaskilning og málþroska að þeir sem eru að læra nýtt tungumál leggi jafnframt rækt við sitt eigið.

Einnig má minna á að við erum stolt af því hvernig íslenskir innflytjendur í Kanada viðhéldu sínu móðurmáli og héldu siðum upprunalandsins og aðrir landnemar í Vesturheimi. 

Allir sem til þekkja eru sammála um að framkvæmd flóttamannaverkefna á Íslandi hafi tekist vel. Þau kosta vissulega peninga og þrátt fyrir að þeir fjármuni skili sér fljótt til baka þegar fólkið fer að vinna og skapa verðmæti eigum við að líta á þá fjármuni sem framlag ríkar þjóðar til mannúðarmála.  

Fólk og stjórnmálaflokkar geta haft sínar skoðanir á alþjóðavæðingu, frjálsri för launafólks milli landa og þeirri staðreynd að á Íslandi búa um 19 þúsund manns af erlendum uppruna. En látum það vera að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.   Móttaka flóttamanna og aðstoð við þá erlendis snýst um björgun mannslífa og gera fórnarlömbum stríðsátaka og ofbeldis kleift að hefja nýtt líf. Þess vegna á ekki að draga málefni flóttamanna inní rökræður þeirra sem hafa mismunandi skoðanir á Íslendingum af erlendum uppruna. 

Eins og á að vera í lýðræðislegu samfélagi þá er rétt að spyrja gagnrýnna spurninga og leita svara. Það hefur verið gert. Vonandi hefur þeim spurningum verið svarað meðal annars á fundinum í dag. 

Ég veit að Skagamenn munu allir sem einn standa saman að því að taka vel á móti flóttamönnunum þegar þar að kemur.  Hinn fjölmenni fundur í dag styrkir mig enn frekar í þeirri trú.


mbl.is Góður andi á upplýsingafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða Óskars Bergssonar, Löngusker og Bitruvirkjun!

Óskar Bergsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins hefur talað fyrir því að flugvöllurinn verði færður út á Löngusker. Ef Lönguskerjaleiðin verður ekki farin þá kæmi mér ekki á óvart að Óskar telji flugvöllinn eiga að vera áfram í Vatnsmýrinni!

Hann hefur talað þannig!

Óskar er þannig með mikilvæga sérstöðu í minnihlutanum í borginni hvað flugvallarmálið varðar.

Óskar Bergsson hefur reyndar sérstöðu í öðru máli einnig. Það er Bitruvirkjunarmálið.

Óskar hefur réttilega gagnrýnt hversu hratt stjórn Orkuveitunnar afskrifaði tugi ef ekki hundruð góðra starfa við umhverfisvæna iðnframleiðslu í Þorlákshöfn með því að blása Bitruvirkjun af - nánast án þess að kynna sér málið. Óskar virðist því fylgjandi Bitruvirkjun á meðan mér sýnist allir aðrir í minnihlutanum - og reyndar meirihlutanum líka -vera á móti Bitruvirkjun.

Ég er sammála Óskari um Löngusker, en vil flugvöllin hins vegar burt úr Vatnsmýrinni.

Ég er einnig sammála Óskari í því að það sé óábyrgt hjá stjórn Orkuveitunnar að afskrifa Bitruvirkjun nánast án umhugsunar. 

 


mbl.is Meirihluti vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Friðrik borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins?

Er ekki bara einfaldara fyrir Sjálfstæðismenn að láta Ólaf Friðrik halda áfram sem borgarstjóri út kjörtímabilið! Ólafur Friðrik getur þá bara gengið í Sjálfstæðisflokkinn aftur og málið er dautt.

Þannig spara Sjálfstæðismenn sér óþarfa vesen og mögulega blóðug átök þegar borgarfulltrúarnir þeirra - sem nánast allir ganga með borgarstjórann í maganum - takast á um það hver eigi að sitja í borgarstjórastólnum út kjörtímabilið.

Framtíðarleiðtoginn verði þá valinn í prófkjör fyrir næstu borgarstjórnarkosningar!


mbl.is Flestir vilja Hönnu Birnu í embætti borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingflokksformaður Frjálslyndaflokksins á leið í Sjálfstæðisflokkinn?

Þingflokksformaður Frjálslyndaflokksins Kristinn H. Gunnarsson gæti verið á leið í Sjálfstæðisflokkinn og fetað þannig í fótspor fyrrum flokkssystur sinnar Karenar Jónsdóttur. Það er allavega ljóst að Kristni H. er ekki lengur vært í Frjálslyndaflokknum eftir harða gagnrýni hans á gælur varaformanns Frjálslyndaflokksins - Magnúsar Þórs Hafsteinssonar - við þann hóp Íslendinga sem er þjakaður af andúð gegn útlendingum.

Ekki hvað síst þegar formaður Frjálslyndaflokksins og miðstjórn flokksins tekur undir gælur Magnúsar Þórs!

Nú vil ég taka skýrt fram að ég tel ekki að það sómafólk sem skipar stóran hluta Frjálslyndaflokksins hafi andúð á útlendingum! Alls ekki formaðurinn - alls ekki vinur minnn Sigurjón Þórðarson - og reyndar alls ekki Magnús Þór varaformaður sem kveikti neista þess hóps Íslendinga sem sjá ofsjónum yfir fólki af öðru þjóðerni og öðrum kynþáttum með afstöðu sinni til fyrirhugaðrar móttöku palestínskra ekkna og barna þeirra á Akranesi.

En aftur að þingflokksformanninum!

Ástæða þess að ég tel líkur á því að Kristinn H. sé á leið í Sjálfstæðisflokkinn eru í fyrsta lagi að honum er ekki vært í Frjálslyndaflokknum, í öðru lagi vegna þess að ég efast um að fyrrum félagar hans í Framsóknarflokknum taki aftur við honum, í þriðja lagi vegna þess að ég tel að fyrrum félagar hans í Alþýðubandalaginu sem nú eru ýmist í VG eða Samfylkingunni séu heldur ekki reiðubúnir til að taka við honum - eða hann að vinna með þeim á ný!

Því stendur Sjálfstæðisflokkurinn einn eftir - en þar eru einu flokksmennirnir sem Kristinn hefur ekki unnið með í stjórnmálaflokki.

... en kannske gengur Kristinn bara í Samfylkinguna!!!

... allavega þá á Kristinn H. þessi öflugi þingmaður sem ekki lætur buga sig fullt erindi á þing!


mbl.is Miðstjórn Frjálslynda flokksins styður Magnús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Íslenskt dómskerfi er bavíanadómskerfi!"

"Íslenskt dómskerfi er bavíanadómskerfi!" sagði Árni Johnsen alþingismaður Sjálfstæðisflokksins á Útvarpi Sögu í morgun.

Ætli Björn Bjarnason viti af þessu?

Það voru fleiri gullmolar sem hrutu af vörum þessa gallvaska eyjapeyja í þættinum - gullmolar sem gætu haldið uppi bloggfærslum langt fram á sumar!

Var að heyra þáttinn endurfluttan meðan ég vaskaði upp áðan.

Er fyrst að komast að tölvunni núna - og ætlaði að blogga um Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra - en gat bara ekki sleppt þessu kommenti hans Árna!

Góður dagur hjá Jóhönnu í dag. Fyrst í þinginu þar sem fjallað var um húsnæðismál. Jóhanna mjög góð þar - og eins og alltaf að berjast fyrir almannahagsmunum! Reyndar tel ég að Jóhanna eigi að skoða fleiri möguleika í aðferðafræðinni við að styðja þá sem minna mega sín í húsnæðismálum - sbr. pistil minn  - Er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?  - en markmið okkar eru þau sömu!

Síðan í tímabærri umræðu um barnavernd og barnaverndarlöggjöf - en eins og Jóhanna sagði þá hafa óljós skil milli ábyrgðar sveitarfélaga og ríkisvaldsins í barnaverndarmálum stundum orðið til þess að aðgerðir barnaverndaryfirvalda hafa ekki verið eins hnitmiðuð og ella - og svo gerir Jóhanna sér grein fyrir því að barnaverndarmál kosta!!!

Já, ég er enn einu sinni ánægður með Jóhönnu!


Friðun hjá Þorgerði Katrínu til fyrirmyndar - Breiðagerðisskóla rústað!

Það er þarft og nauðsynlegt framtak að friða merkileg hús sem byggð hafa verið á undanförnum áratugum. Friðun menntamálaráðherra á sjö merkilegum tuttugualdar húsum er mikilvæg. Athygli vekur að yngsta húsið er einungis frá árinu 1966. Það er hin sérstæða og merkilega bygging Menntaskólans við Hamrahlíð. Það er full ástæða til að friða það hús.

Það hafa nefnilega nánast farið fram opinberar aftökur á merkilegum 20. aldar arkitektúr sem birtist í glæsilegum byggingum sem nú eru rústir einar í sjónrænum skilningi.

Þar er mér efst í huga í augnablikinu hræðileg nauðgun á Breiðagerðisskóla - sem var fallega útfærð bygging með virðulegum stíl - og sérstökum útfærslum á gluggum - sem eru á stundum listaverk út af fyrir sig.

Borgaryfirvöld voru greinilega með hausinn ofan í Tjörninni þegar farið var yfir teikningar af skelfilegri viðbyggingu sem samþykkt var á sínum tíma og var illu heilli reist! Gamla virðulega byggingin sem var á sinn hátt bæjarprýði minnir nú helst - ja, ég veit eiginlega ekki hvað - svo skelfilega ljótt er þetta!

Þá hefur einnig verið byggt við Vogaskóla þar sem svipaður arkitektúr var í gangi - þótt Vogaskólabyggingarnar hafi ekki verið eins stílhreinar og Breiðagerðisskólinn.  Reyndar eru viðbyggingarnar þar stílhreinni - en borgin hefur samt mokað gersamlega yfir þennan 20. aldar arkitektúr með aulaskap.

Já, það þarf að friða meira en ónýta skúra á Laugarveginum!

Mynd gamli Breiðagerðisskólinn að framan.

Mynd núverandi framhlið Breiðagerðisskóla. Framhliðin á þeim gamla horfinn - glittir í þó í hana - undir nýja steypuklumpinum.

Mynd gamli Breiðagerðisskólinn að framan. Vesturálma.

Mynd gamli Breiðagerðiskólinn að aftan. Takið eftir gluggunum. Það sést gegnum hátíðarsalinn og í kringlótta gluggana að austanverðu!

Tengingin við gömlu aðalbygginguna að framan.

Nýja vesturálman - sú gamla hefur verið gleypt.

 


mbl.is Menntamálaráðherra friðar 7 hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin enn eftir að ákveða sig um Íbúðalánasjóð?

Ríkisstjórnin virðist enn eiga eftir að ákveða sig um framtíð Íbúðalánasjóðs ef marka má ummæli nokkurra ráðherra að undanförnu. Því eykst furðan yfir ótímabærum ummælum forsætisráðherra og utanríkisráðherra um "fyrirhugaðar" breytingar á Íbúðalánasjóði á dögunum, ummæli sem hafa skaðað og munu enn skaða fasteignamarkaðinn og mögulega efnahagslífið í heild!

Félagsmálaráðherra reyndi að bjarga því sem bjargað varð með því að koma fram með ítarlegri skýringar á framtíðarsýn sinni sem þó var ekki að fullu útfærð né tímasett.

Fjármálaráðherrann eykur enn á óvissuna og þarf nú að koma fram og reyna að skýra það sem hann var að segja um framtíð Íbúðalánasjóð fyrr í vikunni.

Alþýðusambandið er undrandi og með áhyggjur af Íbúðalánasjóði.

"Ráðherrar ekki á einu máli um sjóðinn" segir Gylfi Árnbjörnsson í 24 stundum í dag!

Óvissan er algjör - en þessari óvissu verður ríkisstjórnin að eyða hið fyrsta.

Ég get bent henni á nokkur atriði til umhugsunar, en það gæti nefnilega verið réttara og einfaldara að félagslegur stuðningur í húsnæðismálum verði ekki í formi styrkingu félagslega hluta Íbúðalánasjóðs, sem gæti leitt til hallareksturs og taps eins og 24,5 milljarðar gjaldþrot Byggingarsjóðs verkamanna á sínum tíma kenndi okkur, heldur gegnum húsnæðisbætur sem taka mið af stöðu fólks hverju sinni.

Íbúðalánasjóður yrði hins vegar áfram rekinn sem öflugur almennur íbúðalánasjóður í eigu ríkisins - en þó án ríkisábyrgðar - þar sem allir geta gengið að lánveitingum vísum.

Meira um þetta í pistlinum:

 Er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?

 


mbl.is Kerfi sem virðist gefast vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaverndaryfirvöld eru alltaf milli steins og sleggju!

Það er ekki einfalt fyrir barnaverndaryfirvöld að ganga hinn gullna meðalveg þegar tekist er við erfið barnaverndarmál þar sem hagsmunir barnsins skulu hafðir að leiðarljósi.  Barnaverndaryfirvöld eru mjög berskjölduð fyrir gagnrýni þar sem þau geta ekki varist ásökunum á opinberum vettvangi með rökstuðningi fyrir einstökum ákvörðunum sínum. Þau eru bundinn trúnaði.

Ákvarðanir barnaverndayfirvalda eru ekki geðþóttaákvarðanir. Þær eru teknar í kjölfar ítarlegra kannanna á högum barna og krafa gerð um vandaðan rökstuðning sem þó eru eðli málsins vegna ekki birtir á opinberum vettvangi.

Ég hef í umræðunni nú um afskipti og meint afskiptaleysi barnaverndaryfirvalda enn einu sinni heyrt harkalega gagnrýni á barnaverndaryfirvöld - gagnrýni sem að mínu mati byggir oft á þekkingarleysi og hleypidómum.

Málið er nefnilega að barnaverndarnefndir eru ætíð milli steins og sleggju í barnaverndarmálum.

Starf barnaverndaryfirvalda hefur alla tíð verið erfitt og það verður enn erfiðara í því harða umhverfi fíkniefnaneyslu þar sem fíklar sem jafnframt eru foreldrar - fjölgar sífellt!

En við verðum - hvort sem okkur líkar betur eða verr - að treysta á dómgreind barnaverndaryfirvalda - jafnvel þótt okkur finnist aðgerðir eða aðgerðarleysi þeirra stundum ekki réttmæt.

PS.

Mál það sem varð upphafi að umfjöllun fjölmiðla um barnaverndaryfirvöld og fíkla er nú komið í réttan farveg. Málið er nú til skoðunar hjá Barnaverndarstofu - sjá tengil á frétt hér!


mbl.is Um 20 fíklar látist frá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?

Gæti verið réttara og einfaldara að félagslegur stuðningur í húsnæðismálum verði ekki í formi styrkingu félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs sem gæti leitt til hallareksturs og gjaldþrots ef tekið er mið af sögunni, heldur gegnum húsnæðisbætur sem taka mið af stöðu fólks hverju sinni?  

Félagsmálaráðherra hefur nú gengið fram fyrir skjöldu og dregið úr þeim skaða sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra sköpuðu með ónákvæmum og ótímabærum yfirlýsingum um óskilgreinda framtíð Íbúðalánasjóðs.  Félagsmálaráðherra segist muni standa vörð um Íbúðalánasjóð og að sjóðurinn muni áfram veita landsmönnum um allt land almenn íbúðalán en án ríkisábyrgðar.

Þau lán munu óhjákvæmilega verða á hærri vöxtum en sambærileg lán eru með ríkisábyrgð. Það er hins vegar ekki aðalatriðið.  Það sem skiptir máli er að almenningur hafi rétt á slíkum lánum. Slíkur réttur er ekki til staðar hjá bönkunum, en ríkisvaldinum ber skylda til að tryggja almenningi aðgang að slíkum lánum dutlungalaust.  Ég treysti félagsmálaráðherra vel í að tryggja almannahagsmuni á þennan hátt.

En það er fleira sem félagsmálaráðherrann segir:

„Samhliða breytingunum gefst tækifæri til að styrkja verulega félagslega hluta sjóðsins eins og ég hef boðað. Slíkar félagslegar áherslur munu nýtast þeim sem verr standa á húsnæðismarkaði, fyrstu íbúðarkaupendum og tekjulágum.“

 

Þessi markmið eru göfug og jákvæð.

En er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs? Ég ætla ekki að útiloka það – en ég er ekki viss!

Hvað þýðir það að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?

Íbúðalánasjóður er fyrst og fremst sjálfbær samfélagslegur sjóður sem nær markmiðum sínum án beinna framlaga úr ríkissjóði.  Ríkisábyrgð sem ríkissjóður ber engan kostnað af og öflug skuldabréfaútgáfa sjóðsins tryggir sjóðnum bestu mögulegu lánakjör í  íslenskum verðtryggðum krónum. Þessir lágu vextir og sá tryggi réttur sem almenningur á hefur lengst af nýst best þeim sem eru í lægri tekjuhópunum.

Hinn sértæki félagslegi hluti Íbúðalánasjóðs í dag er fyrst og fremst félagsleg leiguíbúðalán sem eru niðurgreidd með beinum framlögum úr ríkissjóði, enda má Íbúðalánasjóður ekki niðurgreiða einn lánaflokk með tekjum af öðrum vegna lögbundinna  jafnræðissjónarmiða.

Ætlar ríkisstjórnin að auka slíkar niðurgreiðslur á vöxtum Íbúðalánasjóðs?  Er það styrking félagslega hluta sjóðsins?  Á að hverfa frá hinum sjálfbæra Íbúðalánasjóði yfir í ríkisrekna og ríkisstyrkta félagsmálastofnun?

Ég minni á að ein ástæða þess að Húsnæðisstofnun ríkisins var endurskipulögð með stofnun Íbúðalánasjóðs var sú staðreynd að hinn félagslegi Byggingasjóður verkamanna var gjörsamlega gjaldþrota, hafði étið upp allt eigið fé Byggingasjóðs ríkisins svo það stefndi í allsherjar gjaldþrot Húsnæðisstofnunar. Á núvirði var eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna neikvætt um rúmlega 24 milljarða – sem er meira en núverandi eigið fé Íbúðalánasjóðs.

Þessi staða var afleiðing þess kerfis þar sem ríkissjóður átti að niðurgreiða vexti félagslegra lána – en sveikst um það.

Er ekki einfaldara að allur Íbúðalánasjóður verði almennur og fjármagnaður án ríkisábyrgðar?

 

Er ekki réttara og einfaldara að félagslegur stuðningur í húsnæðismálum verði ekki  í formi styrkingu félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs sem gæti leitt til hallareksturs og gjaldþrots ef tekið er mið af sögunni, heldur gegnum húsnæðisbætur sem taka mið af stöðu fólks hverju sinni?

Þannig er rekstur Íbúðalánasjóðs tryggður öllum almenningi til hagsbóta en markmiðum um félagslega aðstoð næst á mun markvissari hátt!

Með slíkum húsnæðisbótum í stað niðurgreiðslu lána Íbúðalánasjóðs er jafnræði á mörgum sviðum náð.

Það ætti að vera jafnræði milli húsnæðisforma og slíkar bætur óháðar búsetuformi. Það á ekki að skipta máli hvort búið er í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búseturéttarhúsnæði. 

Það ætti að vera jafnræði milli lánveitenda. Það á heldur ekki að skipta máli hvort húsnæðið er fjármagnað af Íbúðalánasjóði  eða öðrum fjármálastofnunum. Húsnæðisbæturnar fara þangað sem þeirra er þörf.

Gæti þetta ekki verið vænlegri leið en „styrking félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs“?


"Íbúðalánasjóður mun starfa áfram sem einn heill sjóður"

"Íbúðalánasjóður mun starfa áfram sem einn heill sjóður segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. Með breytingunum verði hægt að styrkja félagslega hluta sjóðsins án þess að til standi að hætta almennum útlánum til almennings.

Ekki stendur til að láta íbúðarlánasjóð hætta almennum útlánum segir félagsmálaráðherra sem segir að áfram verði staðinn vörður um sjóðinn. Boðaðar breytingar muni hins vegar styrkja félagslega hluta hans."

Framangreint kemur fram á vef RÚV.

Eftir hverju er þá verið að bíða? Af hverju var ekki lagt fram frumvarp á yfirstandandi þingi svo unnt væri að klára málið? Til hvers að tjá sig núna þegar ekki stendur til að gera neitt fyrr en einhverntíma í haust?

Ætli Sigurður Kári hafi skýringu á því?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband