Þorvaldur á Íslensku menntaverðlaunin svo sannarlega skilin!

Hinn frábæri kennari Þorvaldur Jónsson fékk Íslensku menntaverðlaunin í dag fyrir merkt ævistarf. Þorvaldur sem lengst var myndamennta- og skriftarkennari við Réttarholtsskóla hefur alla tíð verið frábær kennari og haft mikil og góð áhrif á nemendur sína.

Ég er svo heppinn að hafa bæði verið nemandi Þorvaldar og kennt með honum sem forfallakennari í Réttarholtsskóla. Þá hefur Þorvaldur kennt yngri systkynum mínum og eldri dóttur minni svo ég veit vel um hvað ég tala.

Ég leyfi mér að birta umsögn dómnefndar Íslensku menntaverðlaunanna um Þorvald:

Þorvaldur Jónasson er fæddur í Ólafsvík 10. apríl 1942. Hann lauk kennaraprófi frá KÍ1964 og hóf það sama ár störf sem myndmennta- og skriftarkennari við Réttarholtsskóla íReykjavík og starfaði þar allar götur til ársins 2008, að undanskildu skólaárinu 1976-77 þegarhann stundaði nám við Statens Lærarhögskole og Kunst- og håndverksskolen í Osló.

Um árabil var Þorvaldur stundakennari við KÍ (síðar KHÍ) og leiðbeindi þar ófáum íslenskum kennaraefnum um skriftarkennslu. Auk þess hefur Þorvaldur sinntfullorðinsfræðslu um árabil, m.a. á vegum Námsflokka Hafnarfjarðar og Tómstundaskólans í Reykjavík.

Þorvaldur hefur alla tíð haft einkar skýra sýn á kennslu sína, markmið hennar og innihald og verið fundvís á leiðir til að vekja áhuga og metnað nemenda og skapa andrúmsloft vinnusemi, vandvirkni og glaðværðar. Hann hefur haldið á loft gildum klassískra og agaðra vinnubragða en jafnframt verið laginn við að ýta undir sköpunargleði nemenda og nýta sér strauma í unglingamenningu hvers tíma kennslu sinni til framdráttar. Margir nemenda hans fóru í framhaldsnám í myndlist að hans hvatningu og með hans stuðningi.

Þorvaldur var einnig umsjónarkennari og var sérstaklega laginn við að vinna með nemendum sem þurftu á sértækum stuðningi að halda. Hann lagði rækt við að kynna nemendum sínum lífið utan skólans, fara á söfn og í hverskonar kynnisferðir og fyrir allnokkrum árum hafði Þorvaldur forgöngu um það ásamt fleirum að Réttarholtsskóli hóf markvissa kennslu fyrir 10. bekkinga um ýmis þjóðfélagsmálefni líðandi stundar; stjórnmál, vinnumarkaðsmál, fjármál, menningu og listir. Þessi kennsla má með nokkrum sanni heita forveri þess sem nú er kennt við lífsleikni og ákvæði eru um í aðalnámskrá grunnskóla.

Þorvaldur hefur alla tíð lagt sig fram um að skapa persónuleg tengsl við nemendur og verið einkar laginn við að laða fram það besta í hverjum og einum. Umhyggju Þorvaldar og virðingu fyrir nemendum og velferð þeirra er við brugðið. Í frásögur er fært hversu minnugur hann er á gamla nemendur sína og áhugasamur um að fylgjast með gengi þeirra og halda við þá tengslum.

Kennsla Þorvaldar hefur einkennst af mannrækt í víðasta skilningi og fullyrða má að uppskera hans hafi verið drjúg á 44 ára kennsluferli.


mbl.is Þorvaldur Jónasson verðlaunaður fyrir ævistarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Ekki amarlegt að láta mynnast sín svona sem kennara!!

Það á að verðlauna kennara sem marka spor sitt á jákvæðan hátt í lífi nemenda. Sem er þeim hvatning til frekara náms og annarra góðra starfa.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 29.5.2009 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband