Ingibjörg Sólrún og Jóhanna Sig sekar um vanrækslu sem ráðherrar

Ég get ekki annað séð en að Ingibjörg Sólrún og Jóhanna Sigurðardóttir - tvíeykið í forystu Samfylkingarinnar - hafi gerst sekar um alvarlega vanrækslu sem ráðherrar í síðustu ríkisstjórn þar sem þær brugðust ekki við aðvörun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vegna bankakerfisins!  

Af hverju í ósköpunum stungu þau Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde höfðinu í sandinn og gerðu nákvæmlega ekki neitt í málunum?

Getur Jóhanna Sigurðardóttir firrt sig ábyrgð - ráðherrann sem heimtaði að ekkert yrði skorið niður hjá sér í fjárlagagerðinni - bara hinum ráðherrunum? Jóhanna var ráðherra í ríkisstjórn sem skellti skollaeyrum við aðvörunum - ríkisstjórn sem ber því fulla ábyrgð á bankahruninu!

Hvernig dettur Ingibjörgu í hug að halda áfram í stjórnmálum í stað þess að axla ábyrgð sína á klúðrinu sem nú er að sliga okkur öll og gefa öðrum sviðið eftir?

Meira að segja Geir Haarde og Árni Matthiesen eru búnir að taka pokann sinn. Ingibjörg og Jóhanna sitja einar eftir af þeim sem bera ábyrgð á að hafa ekki brugðist við viðvörunum!  Nei, reyndar Össur líka!

Telja þau að Samfylkingin þurfi aldrei að bera ábyrgð á mistökum sínum - bara hinir flokkarnir?

Er Jóhanna trúverðug sem framtíðarforsætisráðherra eftir að þessar upplýsingar koma fram?

Ber hún ekki ábyrgð á bankahrunsklúðrinu eins og aðrir ráðherrar síðustu ríkisstjórna?


mbl.is IMF varaði við í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ÖSSI

Þarna er ég svo heilshugar sammála þér. Þetta er alveg hreint með ólíkindum þar sem allstaðar er gerð krafa um endurnýjun. Á meðan þá er hið heilaga tvíeyki að hvítþvo sig eins og þær beri enga ábyrgð.

Jóhanna sagði um daginn að hún væri ekki sammála stjórnarskránni. Hvaða forsætisráðherra getur gefið það út...

Jóhanna fékk líka á sig dóm um daginn og fannst það ekkert tiltökumál.

Og við skulum ekki gleyma Steingrími J...það eina sem hann segir er að þetta sé frá fyrri ríkisstjórn komið og hann hafi ekkert með hluti að segja...þ.e allt sem er óþægilegt en það sem er þægilegt fyrir hann er honum að þakka...að sjálfsögðu..

Í útvarpsþætti í morgun sagði Steingrímur að VG myndi sitja hjá eða greiða atkvæði á móti álveri í Helguvík því það væri verk fyrri ríkisstjórnar...góð samstaða það...

Ekki er þetta góð byrjun á nýju Íslandi eins og oft er talað um.

ÖSSI, 1.3.2009 kl. 19:49

2 identicon

Ingibjörg Sólrún segir að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi ekki brugðist tilmælum ríkisstjórnarinnar með nógu miklum krafti.

Sem sagt allt hinum að kenna eins og venjulega.

Mikið lifandis skelfing eru íslenskir stjórnmálamenn ómerkilegt fólk og svo er verið að tala um útrásarvíkinga og þeirra gjörðir. Stjórnmálamenn hafa ekki efni á að tala um þau mál. Því miður.

V. Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 20:15

3 identicon

Vandinn nær miklu lengra aftur í tímann. Líklega var engu hægt að bjarga þegar þarna var komið, nema með gríðarlegum kostnaði. Hefði t.d. þetta 500 milljarða lán verið tekið, þá hefði þeim peningum verið eytt í október, og skuldir þjóðarinnar væru enn meiri.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 20:20

4 identicon

Hallur !

Ef eitthvað viti væri í umræðunni hjá þér, þá ættu allir 63 alþingismennirnir að segja sig frá embættum, og taka með sér allt embættismannakerfið með sér ( líka framsóknamennina sem enn sitja á víð og dreif í embættum) !

Þú ert sjálfur ekkert stykk frí frá þeim hlutum, þú varst hluti af þessu kerfi !

Það hefur ekkkert breyst hjá ykkur frekar en öðrum flokkum !

Meira að segja Kristinn H er komin aftur til taka !

JR (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 20:22

5 Smámynd: ÖSSI

Icesafe eru síðan 2007 þannig að ef menn hefðu verið með á nótunum þá hefði verið hægt að gera eitthvað í því...

ÖSSI, 1.3.2009 kl. 20:24

6 Smámynd: Hallur Magnússon

JR.

Þeir Framsóknarmenn sem voru í síðustu ríkisstjórn hafa flestir tekið pokann sinn. Ekki allir þó - játa það.

Hins vegar ef þú hefur fylgst með blogginu mínu ndnafarna mánuði - og áður málflutningi mínum allt frá 2004 - þá er langsótt að klína þessu á mig :)

En ef þér líður betur við það - þá er það ósárt af minni hálfu.

Sveinn hinn ungi.

Er ekki það minnsta að reyna í stað þess að sitja hjá og gera ekki neitt?

Hallur Magnússon, 1.3.2009 kl. 20:31

7 identicon

Hallur, þú gerir sömu reginskyssu og allir þeir sem líta á þetta mál út frá þröngum eigin pólitískum hagsmunum.

Þinn flokkur, ásamt með Sjálfstæðisflokknum ber mesta ábyrgð á hruninu og stöðu þjóðarbúsins í dag.  Það er ekki hægt að líta fram hjá því að 18 ára stjórn Flokksins í efnahags- og peningamálum, með dyggum stuðningi og þáttöku Framsóknar hafa leitt til þeirrar niðurstöðu sem við þekkjum í dag.

Að leggj a að jöfnu ábyrgð Sf. ráðherra annarsvegar og svo  íhalds og framsóknar hinsvegar er auðvitað í bestafalli bull og í versta falli óheiðarlegt.  Það er búið að sýna fram á að þó ríkisstjórn Flokksins og Sf. hefði strax  í byrjun árs 2008 snúið sér af öllu afli að bjarga því sem bjargað varðhefði það ekki dugað til.  Fallið hefði ef til vill orðið eitthvað minna en stöðunni varð ekki bjargað.

Seðlabankinn (les DO) hafði öll stjórntæki frá 2002 eða 03 til að taka á málunum en gerði ekki.  Fjámálaeftirlitið sinnti ekki sínu mhlutverki.  Seðlab. sagði fram á mitt síðasta ár að allt væri í sómanum í bankakerfinu.  Seðlab. varaði aldrei við eins og DO sagði.  Hann kom á fund ríkisstjórnarinnar og setti fram 4 eða 5 módel (sviðsmyndir) af því sem gæti gerst á næstu vikum.  Taktu eftir, vikum.  Það var sem sagt eftir að Glitnir var fallinn.  Þar á meðal var sú sviðsmynd að bankarnir sem eftir væru gætu hrunið.

Þá var í raun ekkert hægt að gera og því fór sem fór.  Eftir 18 ára stjórnarsetu og stjórn peningamála var Flokkurinn búinn að planta gæðingum sínum svo þétt í stjórnkerfinu að hann gat hvergi tekið á neinu án þess að höggva sína eigin flokksmenn.  Það var ástæðan fyrir ákvörðunafælni Flokksins.  Því má skamma ISG fyrir að slíta ekki samstarfinu við Flokkinn strax.  En að krefja hana og Jóhönnu um ábyrgð á mistökum og einkavinavæðingu Flokksins og Framsóknar er auðvitað bara bull.

Sigtryggur Karlsson (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 21:33

8 Smámynd: Hallur Magnússon

Sigtryggur.

Mér sýnist þú undirstrika það sem ég sagði:

"Telja þau að Samfylkingin þurfi aldrei að bera ábyrgð á mistökum sínum - bara hinir flokkarnir?"

Ég hef ekki gert lítið úr þætti Framsóknarflokksins gegnum tíðina. Þvert á móti. Ég var fyrstur Framsóknarmanna að fara fram á það á opinberum vettvangi í bloggi mínu 2. nóvember að kalla eftir því að Framsóknarflokkurinn tæki ábyrgð á þeim þætti sem hann ætti í efnahagsörðugleikunum og bankahruninu og fór fram á að skipt yrði um forystu og ráðherrarnir í síðustu ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokki hættu.

Þetta hefur mest allt gengið eftir.

Samfylkingin getur ekki vikið sér undan ábyrgð. Tvíeykið Ingibjörg Sólrún og Jóhanna ber mikla ábyrgð á því sem gerðist.  Of langt mál að rekja hér mistök á mistök ofan hjá Samfylkingunni - en ég bendi á fyrstu stóru misstökin - óábyrg þenslufjárlög fyrir árið 2008.  Þau eiga sinn þátt í ástandinu í dag. Síðan aðgerðarleysið.

En skinhelgi Samfylkingarinnar ríður ekki einteymingi.

Hallur Magnússon, 1.3.2009 kl. 21:59

9 identicon

Ég er sammála Sigtryggi, að öðru leiti en þessu síðasta.

Það sem hægt var að gera, var að ganga frá Icesave eins og Bretar óskuðu eftir og vera viðbúin að svara fyrir hönd þjóðarinnar, en flestir starfsmenn utanríkisþjónustunnar voru uppteknir við að reyna að ná stólnum í Öryggisráðinu. Enginn var því til svara gagnvart Breskum fjölmiðlum þegar mest gekk á.

Því tel ég að Ingibjörg þurfi að segja af sér. Hún stóð sig ekki á vaktinni, þrátt fyrir að aðeins lítill hluti af ábyrgðinni skrifist á hana.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 21:59

10 Smámynd: Hallur Magnússon

Sveinn!

"Aðeins lítll hluti af ábyrgðinni skrifist á hana!

Er ekki í lagi?  Konan hélt mikilvægum upplýsingum frá samflokksmanni sínum - bankamálaráðherranum um mánaða skeið!

Hún gerði EKKERT til að koma í veg fyrir efnahags- og bankahrun!

Þenslufjárlög hennar hjálpuðu ekki til!

IceSave klúðrið byggðist fyrst og fremst upp á hennar vakt!

Hallur Magnússon, 1.3.2009 kl. 22:01

11 Smámynd: Saturnus

Þetta er kjaftæði Hallur, þú ættir ekki að leggja þig niður við að sverta Jóhönnu, um hina skeyti ég minna. Hins vegar er það ekki til bóta hjá flokki sem fer í gegnum gagngera endurnýjun að dúkka svo upp með Kristinn H. Gunnarsson, endurnýttan eina ferðina enn. Lítil endurnýjun þar og gæti kostað Framsókn þriðja manninn í NV eins og þeir töldu sig eygja. Hugsanlegt einnig tap á landsvísu út á það.

Hitt er annað mál Hallur að ég styð Framsókn :)

Saturnus, 1.3.2009 kl. 22:11

12 identicon

Það var svo fátt hægt að gera úr því sem komið var. Hefði tekist að fá þetta risalán sem Framsóknarmenn vildu taka, þá hefði því verið eytt í október og við sætum uppi með enn meiri skuldir en ella.

Aðrar þjóðir eru núna í því að bjarga sínum bönkum. Líttu t.d. á Breta. Þeir eru að bjarga RBS. Það er alveg að fara með þá. Bankastjórinn sem búinn er að keyra allt í þrot á að fá 100 milljónir á ári til æviloka.

Þessu var ekkert við bjargandi.

Aftur á móti ítreka ég að Ingibjörg þarf að segja af sér fyrir sinn þátt. Þar erum við sammála allavega.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 22:12

13 identicon

Rangt, hún tók meðvitaða ákvörðun um að "gera ekki neitt", bæði hún & Geir vildu ekki hindra "rétta fólkið - þeirra fólk" sem átti bankanna.  Við skulum bara "vona að þetta bjargist", við skulum ekki taka alvarlega IMF, Norrænu bankanna, Davíð og aðra sem biðja okkur að vakna til lífsins...  Fjármálaeftirlitið hefði t.d. ALDREI átt að gefa leyfi til Landsbankans fyrir Ice-SLAVE reikningum í byrjun.  Og þegar þeir gáfu leyfi fyrir að Landsbankinn opnaði einnig þessa reikninga í Hollandi þá gat það ekki verið út frá faglegum nótum.  Allir vissu að bönkunum var ekki bjargandi.  Fjármálaeftirlitið heyrir undir Viðskiptaráðherra.  Sá "kjáni" stóð ekki vaktina, frekar en Ingibjörg.  Svo kemur í ljós að hann talaði heldur ekki við Seðlabankastjóra í næstum því heilt ár....  Viðskiptaráðherra, Utanríkisráðherra, Forsetisráðherra, Seðlabankastjóri & forstjóri Fjármálaeftirlitsins, allt er þetta fólk "sem brást GRÓFLEGA í sínum störfum".  Sofandháttur þeirra má líkja við landráð, Páll Skúlason talar um "landráð af gáleysi".   Ég er ósammála honum um að þetta hafi verið af gáleysi, ég tel að þau hafi viljandi ekki viljað stöðva Jón Ásgeir (Ingibjörg) og Björgólf (Geir).  Uppgjör á hruninu mun svara því hvort hér var um landráð af gáleysi að ræða....

Inigbjörg & Geir gáfu "fjárglæframönnum frítt spil - FRELSI til að rúsa heilu samfélagi".  Auðvitað er maður reiður þessum einstaklingum, en þó sérstaklega er maður ósáttur við bankatjórnir, bankastjóra og eigendur bankanna sem ákvaðu að "ljúga & blekkja alla", bæði hérlendis & erlendis!  Skömm allra þessara aðila er mikil, svo má bæta við Óla GRÍS, fjölmiðlum, endurskoðendum, og í raun öllum þeim aðilum sem gerðu sitt ítrasta til að gefa þessum "útrásarskúrkum" trúverðugleika.  Síðan þarf háskólasamfélagið og aðrir sem þögðu að fara í sjálfskoðun.  Af hverju var ekki hlustað á allar þessar aðvörunarbjöllur sem hringdu allstaðar???  Heilbrigð skynsemi reyndi þó í 3 ár að vekja upp fráfarandi ríkisstjórn, en þar á bæ var nú ekki svigrúm eða áhugi á að hlusta á rödd skynseminnar!  Ingibjörg verður að axla ábyrgð, það hefur hún ekki gert, enda er hún "valdasjúkur leiðtogi" sem virðist lifa ennþá í einhverjum "sýndarveruleika".

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 22:25

14 Smámynd: ÖSSI

Jóhanna á alveg sömu sök og IGS í þessu máli. Hún sat í þessari ríkisstjórn og ber því sökina líka...já og að sjálfsögðu Össur líka...Þessi hvítþvottur JS, IGS og ÖS er alveg með hreinum ólíkindum...Þau verða bara að horfast í augu við það að þetta gerðist á þeirra vakt og krafan er endurnýjun....

ÖSSI, 1.3.2009 kl. 22:30

15 Smámynd: Saturnus

Allt í lagi, ef þið viljið þennan vinkil á þetta. Þá skulum við velta fleiri steinum við, hvað með ábyrgða fjölmiðla????' Þeir hafa um langt skeið verið í hvers manns koppi með alla sína spekinga. Hvað með alla hagfræðingana í Háskólunum, sem eru allir vitrir eftir á????????? Hvar var allt þetta fólk???

Saturnus, 1.3.2009 kl. 22:44

16 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ef Jóhanna á sömu sök, sem ég reyndar er ekki sammála, þá þarf Þorgerður Katrín að sama skapi að taka pokann sinn.  Það er alveg ljóst.

Anna Einarsdóttir, 1.3.2009 kl. 22:50

17 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hallur ég held að þú tapir á því að tala um að Jóhanna hafi neitað að skera niður í sínum málaflokki.  Það er einmitt þess vegna sem Jóhanna nýtur þessa trausts - henni finnst löngu orðið nóg með það misrétti sem skapast hefur í þessu þjóðfélagi.  Með þeirri gjörð stóð hún fast með því fólki sem ekkert hafði til saka unnið í þessu hruni, hafði áldrei átt séns í að skuld-vefja sig.

En hvað með ábyrgð Framsóknarflokks með stuðningi sínum við núverandi ríkisstjórn sem þú  gagnrýnir svo?

Hvað með ráðherra menntamála í fráfarandi ríkisstjórn sem sannarlega, þannig að ekki verður hægt að grafa yfir, er grunuð um að hafa staðið í ólögmætum/siðlausum viðskiptum?

Ætlarðu að leggja það að jöfnu að Jóhanna hafi neitað að skera niður í ráðuneyti sínu, til handa fötluðum, öryrkjum og þeim sem minna mega sín, og svo fjármálamisferli menntamálaráðherra til handa henni og hennar börnum?

Hversu verðugur þingmaður yrðir þú?

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 2.3.2009 kl. 01:06

18 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Reyndar eiga ekki ráðherrar fjárveitingar ráðuneyta sinna heldur málflokkar og þjónusta sem þeir standa fyrir. Ef einhvern tímann er þörf fyrir almannatryggingar og félagslega þjónustu er það í kreppu svo eðlilegt ætti að vera að veruleg aukning yrði til þess málaflokks óháð persónum sem stýra ráðuneytum. Fleiri en áður þurfa að draga fram líf sitt á örorkubótum einum eða atvinnuleysisbótum eða ellilífeyri ... Færri í jaðarhópum fá vinnu sem annars skerðir bætur þeirra svo fráleitt er að reikna með öðru en aukningu í þessum málaflokki í kreppu.

Og það er ekki ráðherrann sem fórnar heldur efnaminnstu skjólstæðingar málaflokksins.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.3.2009 kl. 02:10

19 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Það væri nú ágætt að einhver segði manni hvað Ingibjörg átti að gera frá því í apríl þegar alvarleiki málsins varð fyrst ljós? Og fólki þá hollt að muna að hún var utanríkisráðherra. Ríkisstjórnin fól Seðlabanka og FME að grípa til aðgerða. Og þar var þrýst á bankana að að koma t.d. Icesave í dótturfélög og skv. því sem maður heyrði vantaði aðeins nokkrar vikur í að það gerðist. En Breska Fjármálaeftirlitið hafði tafið það mál.

Ingibjörg og fleiri gerðu það sem þau gátu sem var að fara milli landa og reyna að róa fólk til að koma í veg fyrir áhlaup á bankana bæði hér og erlendis en það gekk ekki upp.

En bið fólk að muna að Ingibjörg var utanríkisráðherra og sinnt þeim málum alveg eins og Jóhanna var félags og tryggingarmálaráðherra. Það er verkaskipting í Ríkisstjórn eins og öðrum stjórnum. Þannig væri skrítið ef að Ingibjörg ætti að vera upplýst um öll smáatrið í samgönguráðuneyti eða heilbrigðisráðuneyti.

Finnst þetta svo koma úr harðri átt frá flokk sem hannaði þessa atburðarrás í 12 ár. Flokkur sem hrósar sér nú af því að hafa axlað ábyrgð á sínum þætti með því að skipta um formann en gleyma því að fyrri formaður hætti í látum, ekki af því að hann vildi axla ábyrgð heldur út af ESB málum.  Sjálfstæðisflokkur skiptir um formann út af veikindum m.a. ekki af því að hann hafi verið að axla ábyrgð.

Magnús Helgi Björgvinsson, 2.3.2009 kl. 03:07

20 Smámynd: Hallur Magnússon

Magnús Helgi.

Fyrrum formaður Framsóknarflokksins hætti ekki vegna ESB - heldur vegna mikils þrýstings grasrótarinnar í flokknum sem krafðist breytinga á forystunni m.a. vegna fortíðarinnar.

Alma Jenný!

Það er eitt að forgangsraða í þágu grunnþjónustu Velferðarkerfisins í samvinnu við aðra. Annað að lýsa því yfir við stefnuræðu forsætisráðherra í upphafi haustþings að það verði ekki hagrætt "í mínu ráðuneyti".

Sammála þér með menntamálaráðherrann.

Alma. Það er eitt að gagnrýna núverandi ríkisstjórn og þá sem þar sitja ef þeir eiga það skilið - annað að óska sér aðra ríkisstjórn í stöðunni.

Það var enginn að tala um niðurskurð í fjárframlögum til fatlaðra og öryrkja.  Félagsmálaráðuneytið og verkefni þess er langtum víðtækara en þeir málaflokkar.

Verkefnið er einmitt að verja grunnþjónustu velferðakerfisins og forgangsraða í þágu hennar. Það gerðum við í Reykjavík.  Annað að verja ALLA málaflokka ráðuneytisins - þar verði ekki hagrætt - á sama tíma og menn þurfa aðs tanda í blóðugum niðurskuðri í heilbrigðiskerfinu. Það verður að horfa á heildina.

Annars var fyrst og fremst að benda á að "heilög" Jóhanna bera ábyrgð á efnahagshruninu sem ráðherra í síðustu ríkisstjórn. Hún getur ekki þóst vera stykkfrí - en allir aðrir sekir. Þannig er það bara ekki.

Ekki ætla ég að segja hversu verðugur þingmaður ég verð - ef ég kemst inn á þing - en ég get lofað þér því að ég mun leitast eftir að vinna þar af sanngirni og með samvinnu á grundvelli samvisku minnar og sannfæringu - ekki byrja á því að segja "Nei, allir aðrir verða að spara - en ekki ég".

... og ég get líka lofað þér að ég get tekið á erfiðum málum - þótt það sé ekki alltaf vinsælt. Held að blogg mitt gegnum tíðina undirstriki það. Ég geri og segi það sem mér finnst - ekki það sem er vinsælast hverju sinni.

Hallur Magnússon, 2.3.2009 kl. 08:37

21 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hallur - að sjálfsögðu vita það allir að Félagsmálaráðuneytið stendur fyrir fleiri mál en málefni öryrkja, fatlaðra, barna og fl.  En rétt eins og þú stendur með sannfæringu þinni þá gerir Jóhanna Sigurðardóttir það líka.  Varðandi Heilbrigðisráðuneytið vil ég aðeins segja að þar mætti kíkja betur á hluti.  Ég myndi vilja sjá tilvísunarkerfi á sérfræðinga en eins og kom fram í fréttum á síðasta ári, tekur Einar Thoroddsen háls-nef og eyrnalæknir allt að 54 sjúklinga á dag.

Hvað skyldi hann fá fyrir sinn snúð þar - og hversu mikil gæði eru í þeirri þjónustu.

Mjög margir hjúkrunarfræðingar eru í 60% - 75% starfi en vinna 100%.  Mismunurinn er yfirvinna.

Svona mætti áfram telja.

Það að þú starfir af sanngirni efast ég ekki um svona alla jafna en þau 60% þjóðarinnar sem eru ánægð með störf Jóhönnu Sigurðardóttur, finnst þú sjálfsagt ekkert voðalega sanngjarn með því að nota orð eins og ,,heilög" Jóhanna.  

Ég segi enn og aftur - fjallaðu heldur um fyrrum menntamálaráðherra - haltu því áfram þar til tekið verður á hennar málum.  Þá skal ég lesa gagnrýni þína um Jóhönnu Sigurðardóttur.

Og Hallur - býð eftir skoðunum þínum á 20% flötum niðurskurði á skuldum heimila og fyrirtækja!  Finnst þér það sanngjarnt?

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 2.3.2009 kl. 12:42

22 identicon

Mikið voðalega geta þessir blessuðu Framsóknarmenn vælt og grenjað.......Hvernig væri nú að lýta í eigin barm?

Auðunn Atli (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 14:53

23 Smámynd: Hallur Magnússon

Alma

Hvað varðar flatan niðurskurð - þá hefur einhvern veginn gleymst í umræðunni að það þyrfti að setja ákveðið hámark á fjárhæð niðurfærslunni.

Það er ljóst í mínum huga að það þarf að snyrta þann hluta tillagnanna til - það er að finna hvernig hlutfallsleg niðurfærslar lækkar.

Hvað varðar fyrirtækin  - þá snýst það ekki um sanngirni - heldur hagfræðilegan árangur. Niðurfærsla skulda vel stæðra fyrirtækja skilar sé í aukinni getu þeirrar til áframhaldandi uppbyggingar, fjárfestinga og skattgreiðslna - frekar en sanngirni per ce. Gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru í tvisýnu þá getur þetta orðið til þess að bjarga þeim frá þroti - og þannig tryggt fólki áfram vinnu - og framlegð til þjóðarinnar.  Hvað varðar verst stöddu fyrirtækin - þá eru þessir peningar tapaðir hvort eð er.

Ekki heldur gleyma því - þrátt fyrir að Jóhanna haldi öðru fram - þá er ekki verið að leggja mismuninn á ríkissjóð - heldur er að skila til fólksins í landinu hluta þeirrar niðurfærslu sem hvort eð er er búið að færa niður í yfirfærslunni frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.

Jóhanna vill greinilega að við borgum af lánum okkar - sem hafa verið niðurfærð - til þess að byggja upp höfuðstól nýju ríkisbankanna.

Sanngjarnt?

Þá sakna ég efnahagstillagna frá henni - og þeim sem hafa verið að gagnrýna tillögur Framsóknar!

Menn bara gagnrýn - án þess að kynna sér forsendurnar - en hafa engar lausnir sjálfir, Vont.

Hallur Magnússon, 2.3.2009 kl. 21:19

24 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hvers lags vinnubrögð eru það Hallur - ,,ef það gleymdist" að setja ákveðið hámark á niðurskurðarleiðina!

Hvernig líður þér þegar þú skrifar þessa setningu.  Mér myndi líða eins og fífli.  Ef það er hugsun og stefna ykkar Framsóknarmanna þá liggur málið allt allt öðruvísi við.  

Það er himinn og haf á milli þess að veita heimilum - venjulegum heimilum flatan niðurskurð - eða t.d. fyrirtæki eins og N1 eða fleiri slík.

Heimilin fá ekki launahækkanir og fyrirtækin þurfa ekki að greiða umsamdar launahækkanir.  Það er nú umtalsvert fyrir fyrirtæki landsins. Áður en fólk verður tilbúið til þess að gefa meira eftir í þeim efnum, ættu fyrirtækin kannski að sýna fram á ,,lánafyrirgreiðslur" í hvaða mynt, til hvers tekin, arðgreiðslur, launagreiðslur o.s.frv.

Fyrirtæki eins og almenningur, alls staðar í heiminum þarf að skera niður í samræmi við raunverulegt eignarhald.

Dæmi:  Ferðaþjónustufyrirtæki sem selur gistingu á gistiheimili í kojur - svefnpokapláss.  Nóttin kostar 4.000 krónur fyrir manninn.  Þessi tala sýnir að fyrirtækin eru ekki að skera niður raun-innkomu sína um 30% eins og almenningur gerir með því að gefa eftir umsamdar launahækkanir.  Nei, verðlagning fyrir þjónustu þeirra á fullum dampi, á meðan einstaklingar taka á sig launaskerðingu til aðstoðar atvinnulífinu!

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 3.3.2009 kl. 01:33

25 Smámynd: Hallur Magnússon

Alma Jenny!

Það gleymdist ekki að setja fyrirvaran í tillögurnar. Fjölmiðlar og andstæðingar Framsóknarflokksins hafa bara kosið að líta fram hjá því að það er gert ráð fyrir að sett verði hámark!

Þetta kom mjög skýrt fram hjá formanni flokksins á sínum tíma!

En þetta er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem fjölmiðlar segja bara hálfan sannleikan um tillögur og störf Framsóknarflokksins. Það er eðlilegt að andstæðingarnir reyni að snúa út úr - en það er verra með fjölmiðlana.

Hallur Magnússon, 3.3.2009 kl. 08:43

26 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hallur er það ekki á blaði hjá Framsóknarmönnum - að þak skuli á niðurskurðartillögunum?

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 3.3.2009 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband