Staðfesta Einars Kristins til fyrirmyndar!

Staðfesta Einars Kristins sjávarútvegsráðherra við úthlutum fiskveiðiheimildar er til fyrirmyndar! Einar Kristinn tekur enn á ný mjög erfiða ákvörðun þar sem hann fer nánast eftir fyrirliggjandi tillögum fiskifræðinga um takmarkaðar fiskveiðiheimildir á næsta fiskveiðiári, þrátt fyrir mikinn þrýsting útvegsmanna og þrátt fyrir versnandi efnahagsástand þar sem freistandi hefði verið að láta reka á reiðanum og auka fiskveiðiheimildir af efnahagslegum aðstæðum.

Vandamálið er hins vegar það að ríkisstjórnin hefur brugðist landsbyggðinni vegna skorts á raunhæfum mótvægisaðgerðum, þrátt fyrir gorgeir og gildar yfirlýsingar þar um. Nú verður ríksistjórnin að grípa til raunverulegra og raunhæfra mótvægisaðgerða!

Það hefði verið alvarlegt stílbrot hjá Einari Kristni að standa ekki við þá stefnumótun sem hann lagði upp með á síðasta ári þegar hann skar verulega niður þorskheimildir í takt við tillögur fiskifræðinga. Hins vegar er ljóst að margir efast um réttmæti þeirrar stefnumótunar. Mögulega með réttu.

Fiskifræðingar og stjórnmálamenn verða að hlusta á rök þeirra sem gagnrýna þessa stefnumótun og telja verndun fiskistofnanna með mikilli takmörkun hámarksafla ekki réttu leiðina og geti mögulega hafa haft öfug áhrif. Í ljósi þess að þorskstofnin hefur haldið áfram að minnka þrátt fyrir verndunaraðgerðir kann þetta að vera rétt.

En það er ekki rétti tíminn nú að snúa við blaðinu. Það verður að klára þessar aðgerðir og sjá hvort þær skila tilætluðum árangri. Ef ekki - þá verða stjórnmálamenn og vísindamennirnir í Hafró að hugsa sinn gang - og hlusta á kenningar þeirra vísindamanna sem eru þeim ósammála. Þeir hafa meðal annars bent á þróun mála í Barentshafi. Þá hefur verið bent á að ekki eigi að veiða fæðuna frá þorskinum, það er loðnuna. 

Þessar raddir kunna að hfa rétt fyrir sér og það er skylda mann að íhuga þær.

En þrátt fyrir það tekur Einar Kristinn rétta ákvörðun og á hrós skilið fyrir staðfestuna.


mbl.is Næsta ár verður erfitt fyrir sjávarútveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þessi ákvörðun Einars, sem þú hælir honum fyrir, mun auka brottkast verulega.

Sigurður Þórðarson, 2.7.2008 kl. 08:08

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Sigurður.

Þú semsagt heldur því fram að íslenskir sjómenn séu lögbrjótar og umhverfissóðar?

Hallur Magnússon, 2.7.2008 kl. 09:19

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég skil ekki svar þitt Hallur til Sigurðar, þetta er bara staðreynd og ég er sannfærður um að brottkast um aukast mikið við þessa ákvörðun Einars.    Ef sjómenn eru lögbrjótar þá eru  þeir það af illri nauðsyn og vegna hrikalega lélegrar fiskveiðistjórnunar... spurning hver er umhverfissóðinn.. sjómenn eða ríkisbáknið sem á engan hlustar.. já eða bara framsókn sem er aðalhöfundur kvótakerfisisns sem allt ætlar að drepa á landsbyggðinni.

Óskar Þorkelsson, 2.7.2008 kl. 09:45

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Nei, Hallur það eru kvótasinnar sem eruð umhverfissóðar með því að innleiða kerfi sem þvingar menn til brottkasts.

Sigurður Þórðarson, 2.7.2008 kl. 11:24

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hallur, sjómenn báðu ekki um kvótakerfinu yrði komið á, svo því sé til haga haldið.  Menn gera sér það nefnilega til dundurs að snúa staðreyndum á haus.  Ég minnist þess að hafa lesið greinar eftir  kvótasinnann Hannes H. Gissurarson, þar sem hann heldur því fram, að umgengni um auðlindina yrði betri við að koma henni í einkaeign. Hannes hefur sér það til afsökunar að hafa aldrei pissað í salt vatn og hefur því ferðast um víða veröld til að útskýra kvótakerfið, sem hann hefur ekki hugmynd um hvernig er í framkvæmd.  Þannig að þú Hallur telur þig kannski vera í góðum félagsskap?

Sigurður Þórðarson, 2.7.2008 kl. 11:46

6 Smámynd: haraldurhar

   Það er dapurlegt að lesa blogg þitt Hallur varðandi kvótaúthlutunna, og kemur berlega í ljós að þú hefur ekki minnstu hugmynd um veiðar og umgengi um okkar dýrustu auðlind. Það að lýsa yfir að menn séu lögbrjótar og umhverfissóðar við það eitt að reyna hafa í sig og á, vegna  ólaga er sett eru af misvitrum stjórnmálamönnum, og ríkilaunuðum vísindamönnum.  Að eyða orðum á bullið í ´glópnum honum Hannesi Gissurasyni dettur mér ekki hug.

   Hallur það er ekki hægt að stjórna fiskveiðum, þar sem úthlutaðar heimildir miðast við viktaðan sjávarafla, það fer enginn á sjó nema til að hámarka sínar tekjur. Það eitt að hafa notast við liðónýtt fiskveiðistjórnunarkerfi í aldarfjórðung er einungis hefur leitt til minni afla í öllum tegundum, nema kannsi Humars sem þrífst vel á brottkastinu, ætti að leiða til þess að færi að rofa til í höfðinu á þér og öðrum er hafa ekki haft vit til að viðurkenna staðreyndir.  Mín trú er sú að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verði dautt innan 2 ára, því við höfum ekki lengur efni á svona vitleysu.

   Hallur þu bloggar kannsi næst um að jörðin sé flöt.

haraldurhar, 2.7.2008 kl. 12:47

7 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágætu félagar!

Það kom mér ekki á óvart að það yrðu sterk viðbrögð við athugasemd minni þar sem ég spurði hvort Sigurður héldi því fram að "íslenskir sjómenn séu lögbrjótar og umhverfissóðar". 

Það er ljóst að brottkast er lögbrot. Aukið brottkast vegna fyrirliggjandi ákvörðunnar eru merki um umhverfissóðaskap - hvað sem hver segir.

Þið staðfestið það að slíkt sé stundað. Menn ættu kannske að hugsa sig tvisvar um í þessari stöðu.

Það kann að vera að ástæðan sé kvótakerfið. En ég hef staðfestan grun um að brottkast hafi verið tíðkað fyrir tíma þess kerfis.  Viljið þið kannske meina að svo hafi ekki verið?

Mín skoðun er sú að brottkast sé siðferðislega rangt - óháð því hvort ástæðan eru lög og stefna stjórnvalda eða ekki.  Menn ættu kannske að íhuga hvernig unnt er að lágmarka þetta innan núverandi ramma - á meðan sá rammi er.

Kristinn heldur því fram að ég sé mesti "umhverfissóðinn" þar sem ég skilji ekki aðstæður fiskimanna. Ég sé ekki hvernig ég get verið "umhverfissóði" einungis vegna meints skilningsleysis - en það er annað mál.

Ég frábið mér dylgjur ykkar um það að ég hafi "ekki minnstu hugmynd um veiðar og umgengi um okkar dýrustu auðlind" og að ég vilji ekki "... skilja aðstæður fiskimanna eins og þú Hallur.  Gasprar hér með mál sem þú vilt ekki vita hvernig eru."

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir stöðunni. Þótt ég dragi fram þá stöðu að lögbrotið "brottkast" og að í umgengni við náttúruauðlindina séu menn með "umhverfissóðaskap" - sem þið staðfestið að er rétt hjá mér - þá þýðir það ekki að ég skilji ekki vandamálið. Þvert á móti.

Kristinn fer yfir stöðu mála og það hvernig alltaf er meðafli - og því sé brottkast - eða þorski landað sem ufsa.

Halló Kristinn!  Ertu að reyna að halda því fram að ef ráðherrann hefði aukið verulega í kvótann að þetta hlutfall myndi minnka? Brottkast eða þorskar hættu að breytast í ufsa við löndun? Sú röksemdarfærsla stenst ekki.

Ef þið lesið bloggið með opnum augum og æsingarlaust - þá undirstrika ég að fiskifræðingar og stjórnmálamenn GETI HAFT RANGT FYRIR SÉR!  Hins vegar sé óábyrgt að hlaupa til núna og ganga þvert á ráðleggingar Hafró og stefnumótun ráðherrans frá því í fyrra. Hins vegar sé full ástæða til þess að taka tillit til þeirra sem eru ósammála - og rök þeirra geti kallað á breytta stefnumótun. En það er ekki rétti tíminn til þess að hlaupa til þess núna á þessari stundu.

Haraldur segir: "það fer enginn á sjó nema til að hámarka sínar tekjur"  og réttlætir þannig brottkast og mögulegan umhverfissóðaskap.  Á sama hátt mætti halda fram að enginn fari í svínakjötsframleiðsli nema hámarka sínar tekjur og hafi þá afsökun fyrir því að sleppa öllum úrgangi óbeisluðum út í næstu laxveiðiá - því það minnkar hagnaðinn að ganga skikkanlega frá úrgangi í samræmi við lög og reglur þar um.

'Eg veit að þetta er svínsleg samlíking - en hugsið um hana samt.

Kær kveðja

Hallur Magnússon

Afkomandi aflakóngs og annarra fiskimanna

Hallur Magnússon, 2.7.2008 kl. 13:35

8 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Hallur þessi færsla þín og svör s.s. að gera sjómenn ábyrga fyrir brottkasti sem starfa í kerfi sem brýtur í bága við mannréttindi og hvetur beinlínis til að verðmætum sé hentt á glæ, bendir sterklega til þess að þú hafir ekki kynnt þér önnur sjónarmið en þau sem hafa verið leyfð inn á flokksþingum Framsóknarflokksins.

Sigurjón Þórðarson, 2.7.2008 kl. 14:13

9 Smámynd: Hallur Magnússon

Sigurjón, kæri vin!

Það er ekki rétt hjá þér. Þú ættir að sitja eins og eitt flokksþing Framsóknarflokksins og hlusta á sígilda, heita umræðu um kvótakerið, brottkast og fleira :)

Því fer fjarri að allir séu þar sammála.

Þá fer því líka fjarri að ég hafi ekki kynnt mér málin. Þvert á móti.  Minni á að ég hef búið á Vopnafirði, Borgarifrði eystra og Hornafirði - og hefði ekki átt séns á að leiða hjá mér umræðuna - og atvinnulífið þótt ég hefði reynt - semég gerði ekki.

Heldur þú að athugsemdin  "Þú semsagt heldur því fram að íslenskir sjómenn séu lögbrjótar og umhverfissóðar?" byggi á vanþekkingu?  Alss ekki. Hún er einmitt sett fram til þess að fá á síðuna mína nákvæmlega þessa umræðu - og beina sjónum að nákvæmlega þessu vandamáli - hverjum sem því er að kenna!

Get sagt að mér finnst margt í málflutningi ykkar svokölluðu frjálslyndra í sjávarútvegsmálum afar athyglisvert - og bendi reyndar í blogginu mínu að það beri að taka mark á þeim ábendingum ykkar!

Hallur Magnússon, 2.7.2008 kl. 14:29

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæri Hallur,

það er þakkar- og virðingarvert  af þér að koma þessari þörfu umræðu af stað. Næst þegar þú tekur þátt í umræðu meðal framsóknarmanna verður þú vonandi fróðari og þá má segja að þessi umræða hafi verið til nokkurs gagns. Framsóknarflokkurinn hefur margt sér til ágætis en missteig sig í sjávarútvegsmálum og nær vonandi að leiðrétta það sem fyrst. 

 Þig grunar að fiski hafi verið hent fyrir tíma kvótakerfisins, sá grunur þinn er ekki á rökum reistur, enda var ekki efnahagslegur hvati til þess til staðar. Þvert á móti fengu menn greitt fyrir að koma með fisk að landi en ekki fyrir að eiga óveiddan fisk í hafi. Í þessu felst munurinn, sem er skynsömum manni eins og þér augljós, þegar þú hugleiðir þessa röksemd.  Hitt er annað mál að ýmsir hafa haldið hinu gagnstæða fram gegn betri vitund til þess að afvegaleiða umræðuna.  En ég tel þig alls ekki í þeim hópi. 

Fiskifræðin er ung grein,  skoðaðu  þessa töflu  um veiðarar  og ráðgjöf  í Barentshafi:

Sigurður Þórðarson, 2.7.2008 kl. 15:51

11 Smámynd: Hallur Magnússon

Sigurður!

'Eg var einmitt að vísa til þessa í bloggi mínu

Hallur Magnússon, 2.7.2008 kl. 17:54

12 Smámynd: haraldurhar

   Það er rétt hjá þér Hallur að verðlausum afla, var ekki hirtur hér á árum áður, og Karfi var bræddur, og engum datt í hug að koma með Humar að landi, svo maður tali nú ekki um rækju.  Með tilkomu gámaútflutings fékk nær allur fiskur verð, og einning við að nýjir markaðir opnuðust eins og á Spáni, Portugal auk Japans, að farið var að hirða allan flatfisk.  Með tilkomu núverandi fiskveiðistjórnuarkerfis hófst nýr og verri umgengisháttur um aflan er kom um borð, þar sem verðmat ræður því hvað berst að landi. Sem dæmi hefur nánast enginn karfi borist að landi undir 700 gr. Þorskur þarf að vera 5 kg og stærrri til að standast kvótaverð.  Nánast enginn dauðblóðgaður né selbitinn eða marflóétinn fiskur hefur komið á land í áratugi.  Það eitt að úthluta 100 tonnum af ýsu, á sama tíma og úthlutun þorsk er 120 þúsund tonn, vita allir að ekki er mögulegt að ná nema með miklu brottkasti á þorski. Núverandi kerfi bíður upp á ótrúlega sógun, og mér er nær að halda að um þriðjungur eða meir af veiddum afla fari aftur fyrir borð, á sumum skipum hefur slógrennan verið kolluð Gullaugað.

   Það er athyglisvert að fyrir nokkrum árum ætluðu nokkrir sjómenn, að segja allan sannleikan um umgengnina um auðlindina, en þeim var gert ljóst af ráðamönnum að ef þeir lokuðu ekki aftur þverrifunni, þá biði þeirra ekkert annað en vist á Littlahrauni.  Þeir hættu sjálfsögðu við að opna sig enn frekar, því þeir höfðu hug á að halda heimilum síum og vera frjálsir ferða sinna.

   Hallur hér eru aðeins tæpt á örfáum staðreyndum varðandi þessi mál, og þu sem gefur þig út sem sjálfstæðan ráðgafa í fjármálum sæmir ekki að mæra einn auðsveipasta þjón ríkjandi valds sem heitir Einar Guðfinnsson, og ekki skaltu gleyma því að hann náði kostningu til Alþingis að minnsta kosti tvisvar, með því loforði að hann beitti sér fyrir afnámi kvótakerfisins, en gleymdi því að sjálfsögðu er hann var kominn í skjólið á Alþingi.

haraldurhar, 2.7.2008 kl. 20:35

13 Smámynd: Kristin Á.Arnberg Þórðardottir

Hallur mig langar að spyrja þig hefur þú verið mörg ár til sjós?Mundir þú vilja byggja afkomu þína og þinna í því umhverfi sem sjávarútvegur á Íslandi bíður sjómönnum uppá í dagNei ég held ekki

Kristin Á.Arnberg Þórðardottir, 2.7.2008 kl. 22:07

14 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæta Kristín.

í sjóferðabók er ég með rúma 13 mánuði. Það er nú ekki meira en það.

En þú?

Hallur Magnússon, 2.7.2008 kl. 22:26

15 Smámynd: Kristin Á.Arnberg Þórðardottir

Sem eiginkona sjómanns í 35ár,móðir sjómans og systir fjögurra sjómanna já þá tel ég mig vera búna að vera nokkur ár til sjós.En það var þetta með afkomuna sem mér lék forvitni á að vita.

Kristin Á.Arnberg Þórðardottir, 2.7.2008 kl. 22:57

16 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæta Kristín!

Verð fyrst að leiðrétta stöðuna í sjóferðabókinni. Fór að hugsa mig betur um og taldi aftur vikurnar. Eru reyndar ekki nema um 11 mánuðir. En látum það liggja milli hluta.

Þú hittir naglan á höfuðið þegar þú ræðir um afkomu sjómannafjölskyldna. Þar liggur vandinn!

En...

... ef við gefum okkur það að Hafró hafi rétt fyrir sér ... þá er sjómannafjölskyldum enginn greiði gerður með því að Einar K. auki kvótann. Slíkt gengi gegn langtímahagsmunum sjómannafjölskyldna - því í stað þess að byggja upp þorskstofninn til þess að við fáum meiri arð í framtíðinni - og sjómannafjölskyldurnar sómasamlegri tekjur - þá værum við að ganga á stofninn og þessi atvinnugrein væri í hættu. Áframhaldandi lágar tekjur sjómannafjölskyldna. Eða alls engar tekjur.

Staða sjómannafjölskyldna ein og sér eru því ekki rök fyrir að auka kvótann!

Hins vegar er það mín skoðun að verndun og uppbygging fiskistofannanna sé samfélagslegt verkefni. Mikil skerðing aflamarks á ekki að vera á kostnað sjómannafjölskyldnanna einna - heldur á samfélagið í heild sinni að taka byrðarnar.

Þess vegna gagnrýni ég ríkisstjórnina mjög fyrir að hafa ekki komið með raunhæfar mótvægisaðgerðir samhliða fyrir niðurskurði - og hvet hanna til þess að koma nú með raunhæfar mótvægisaðgerðir svosjávarbyggðirnar haldi sjó.

Þá er ég þeirrar skoðunar að ríkisvaldið hefði átt að koma tímabundið til móts við þá sjómenn sem unnið hafa við greinina undanfarin ár - beint, fjárhagslega - til að bæta amk. hluta þess tekjutaps sem sjómannafjölskyldurnar verða fyrir vegna þessa niðurskurðar - sem vonandi er tímabundinn og verði auknar að nýju vegna þess að þorskstofninn braggist. 

Þá er ég einnig þeirrar skoðunar að ÞEGAR aflaheimildir verða auknar að nýju - þá verði tækifærðið notað til þess að vinda ofan af núverandi kvótakerfi. Auðlindirnar í sjónum eiga að vera þjóðareign og nýtingarréttur þeirra tímabundinn.

Hef ekki tíma til þess nú að útlista mínar hugmyndir um hvernig kerfinu verði breytt - en mun gera það við fyrsta tækifæri.

Verð þó að minnast á það að ég er sammála vini mínum Sigurjóni um að það gengur ekki fyrir stjórnvöld að bregðast ekki beinskeittar við áliti mannréttindanefndar um að í núverandi kerfi felist mannréttindabrot. Hvað sem mönnum finnst og hefur fundist um núverandi kvótakerfi - þá er ljóst að við verðum að gera á þvi breytingar í kjölfar niðurstöðunnar.

Breytir þó ekki minni skoðun að á þessum tímapunkti var það rét hjá Einari K að vera staðfastur í úthlutun aflaheimilda fyrir þetta fiskveiðiár.  En það þarf að nýta tíman vel til þess að undirbúa nauðsynlegar breytingar - og tryggja það á fyrir næsta fiskveiðiár verði gerðar breytingar sem uppfylli skilyrði um mannréttindi.

Meira um það síðar.

Kærar þakkir fyrir skemmtilegar athugasemdir öll sömul!

Hallur Magnússon, 3.7.2008 kl. 07:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband