Hús enn hleruð á Borgarfirði eystra!

Hús eru hleruð á Borgarfirði eystra á hverjum vetri - eftir því sem ég kemst næst! Mér brá mjög fyrst þegar ég bjó á Borgarfirði og heyrði að hús væru reglulega hleruð, en róaðist þegar ég heyrði skýringuna!

Það er nefnilega ekki um samskonar hlerun að ræða og fjallað er um í njósnafrétt Morgunblaðsins, heldur er um að ræða aðgerðin að setja hlera fyrir glugga húsa sem snúa í suðurátt. Það háttar nefnilega þannig á Borgarfirði eystra að það koma ótrúlegir hvellir í ofsaroki á veturna, byljir sem hafa hreinsað glugga úr suðurhlið húsa!

Reyndar var plexigler í suðurglugganum í eldhúsinu í skólastjórabústaðnum Þórshamri þar sem ég bjó þetta ár sem ég kenndi á Borgarfirði eystra!  Mér var sögð saga um tilurð plexiglersins - hvort sem sú saga sé sönn eða ekki.

Það var þannig að nýr skólastjóri þrjóskaðist við að hlera gluggann. Þegar fyrsta alvöru rokið kom hætti honum að lítast á blikuna. Sem betur fer var uppkominn sonur hans í heimsókn. Þeir feðgar fóru því út með hlerann og hugðust setja hann fyrir gluggan, en þá vildi ekki betur til en vindhviða feykti hleranum - og syninum - úr höndum skóalstjórans og hefur hvorugúr sést síðan - hvorki hlerinn né sonurinn!

Væntanlega er sannleikskorn í sögunni - en líkur á því að einungis hlerinn hafi fokið á haf út - en sonurinn farið til síns heima í kjölfarið!

Eftir þetta var bara sett plexigler í gluggann!

En reyndar er næstum alltaf gott veður á Borgarfirði eystra - og gott að búa þar!

Upplýsingavefur um Borgarfjörð eystra!


mbl.is 32 heimili voru hleruð á árunum 1949-1968
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Samskonar hlerun hefur einnig tíðkast á Norðfirði. Hvort hún var meiri í "Litlu Moskvu" á kaldastríðsárunum veit ég ekki, en kæmi þó ekki á óvart.

Haraldur Bjarnason, 27.5.2008 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband