Kýrnar orðnar hestar - og ærnar kýr!

Kýrnar eru orðnar hestar, kindurnar kýr og hundarnir ær!

Allavega er það svona í leikfangakassanum "Völuskrín" þar sem er að finna eftirlíkingar af dýrabeinum sem íslensk æska lék sér að allt fram á síðari hluta 20. aldar.

Ég sé ekki betur en að með "Völuskríni" sé í uppsiglingu menningarsögulegt slys - þar sem því er haldið að börnum og útlendingum að kjálkabein úr kindum séu hestar - en hingað til voru þau kýr. Hins vegar finnast engir "alvöru" hestar í kassanum - það er ærleggir sem notaðir voru sem reiðhestar meðal barna gegnum árhundruðin.

Þá er valan orðin að kú - en völur hafa hingað til verið sauðfé!

Til að toppa þetta þá eru hundarnir orðnir að ám!

Hvað er eiginlega í gangi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þörf áminning og ótrúleg frétt. Reyndar minnir þetta á þann dæmalausa aulahátt að kenna börnum ekki lengur að fallbeygja nöfn húsdýranna.  Auðvitað gegna húsdýrin ekki lengur því hlutverki sem þau gerðu fyrir svona 50 árum. Eftir stendur þó hitt að búfénaðurinn var undirstaða mannlífs á Íslandi allt fram til miðbiks síðustu aldar og er stór hluti af menningarsögu þjóðarinnar.

En nú heyrum við ríkisfjölmiðla segja okkur frá því hvernig þær hegða sér áin og kúin! 

Árni Gunnarsson, 27.12.2007 kl. 18:10

2 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Fyrir allnokkrum árum kom ég með börnin mín í heimsókn til foreldra minna í sveitina. Börnin voru eitthvað að kýta og pabbi sagði þeim að hætta því og fara heldur að leika sér. "Leika sér að hverju?", spurðu börnin. Þau stormuðu inn í eldhús og sögðu hneyksluð við mig: "Veistu hvað hann afi gerði? Hann hellti úr fullum poka af beinum og sagði: Leikið ykkur!" Svo fóru þau út aftur og skutu hvort annað með kjálkunum!

Í mínum beinabúskap voru:

Kýr úr kjálkabeinum, þar sem tennurnar voru auðvitað spenarnir,

Hestar úr leggjum stórgripa og folöld/tryppi úr sauðaleggjum,

Kindur úr hornum, lömbin úr hníflum eða afsögun framan af hornum, þegar fé var hornskellt,

Hundar og kettir úr mis stórum völubeinum.

Gripahús voru grafin inn í börð, eða hlaðin með steinum og tyrft yfir. Samt var ég ekki alin upp við torfbæi, en sveitasögurnar sem ég las gerðust í torfbæjum og myndefnið líka.

Nýjustu landbúnaðartæki voru smíðuð úr afgangsviði, m.a. rakstrarvél úr kringlóttri trésneið með nöglum út úr allan hringinn.

Soffía Sigurðardóttir, 28.12.2007 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband