Rakkarnir krafsa yfir skítinn sinn!

Sem gamall áhugamaður um mismunandi lundarfar misgóðra smalahunda get ég ekki annað en dáðst að dugnaði nokkurra rakka í fjölmiðlastétt sem á undanförnum dögum hafa verið að krafsa yfir skítinn sinn í von um að almenningur taki mark á þeim en ekki siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Fyrst er að nefna rakka sem minnir mig á öflugan flökkuhund frá Rauðamel sem löngum dvaldi á Oddastöðum. Hundkvikindið fann lykt af lóðatíkum í margra kílómetra fjarlægð og var mættur til uppáferðar vítt og breytt um sveitina. Dvaldi hins vegar þess á milli á Rauðamel eða Oddastöðum eftir því sem betur var við hann gert. Þetta var að mörgu leiti sjálfstæður hundur en fylgdi þó húsbónda sínum á ögurstundu þegar þess var virkileg þörf. Átti þó til að svíkja húsbónda sinn tímabundið, en kom alltaf aftur flaðrandi upp um hann. Góður smalahundur og af góðu smalahundakyni held ég.  Smalahundakynið minnir mig að hafi komið úr eyjum - það er Breiðafjarðareyjum.

Þá er það afar sérstök tík sem neri sér alltaf upp að fyrrnefndum rakka - hvort sem hún var á lóðaríi eða ekki. Var reyndar óeðlilega oft á lóðaríi minnir mig og svona undirlægja ef öflugir hundar voru nærri. Gelti hins vegar ákaft að utanaðkomandi hundum sem ekki áttu öflugan húsbónda.  Grönn tík og með sérstakt grásprengt háralag. Kölluð Fluga minnir mig. Tíkin var frekar rólyndisleg í framkomu en beit helvíti fast ef henni var sigað. Mikill leikur í henni.

Í þessum hundahópi var í fyrstu minningum mínum einnig skemmtilegur og státinn hvolpur - sem hélt hvolpnum í sér langt frameftir aldri. Dálítið bangsalegur og var snillingur í að gjamma í túnrollurnar sem yfirleitt hröktust undan. Mér þótti alltaf vænt um þennan hvolp - jafnvel eftir að hann varð fullorðinn hundur - ekki fjarri því að hann væri músíkalskur helvítið á honum. Hann gjammaði reyndar með forysturakkanum og grásprengdu tíkinni þegar hastað var á þá - en mér fannst ekki alltaf sem hugur fyldi gelti.

Að lokum verð ég að minnast á smáhvolp sem rataði inn í þennan rakkahóp undir það síðasta sem ég fylgdist með í sveitinni. Hann var afar státinn - kom reyndar að austan þar sem hann hafði getið sér góðan orðstí við að hælbíta túnrollur. Nær því hvítur með spert eyru. Var selfluttur vestur á land þar sem hann missti sig og réðst að glæsilegri hryssu sem lofaði ágætu á komandi hestamóti. Særði hana þannig að hún komst ekki á mótið - en síðar kom í ljós að hundsbitið var ekki eins djúpt og menn héldu - en þá var mótið bara búið.

Þessi rakkahópur - að hvíta hvolpinum undanskilnum - hefur farið mikinn að undanförnu og gjammað undan skömmunum sem þeir fengu réttilega fyrir hælbitið. Bera sig vel - en ættu að hundskast með skottið á milli lappanna.

Svo er nú það.

Meira síðar um fleiri misjafna hunda sem tekið hafa undir gólið og reynt að hjálpa framangreindum rökkum við að krafs yfir skítinn sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband