Samtök atvinnulífsins - lítið ykkur nær!

Enn fer Villi Egils og félagar hans hjá Samtökum atvinnulífsins mikinn vegna tilvistar Íbúðalánasjóðs og sakar sjóðinn um að bera ábyrgð á verðbólgunni.  Villi og félagar hjá SA ættu að líta sér nær þegar sökudólgsins er leitað, því hömlulaus útlán til almennings eru ekki gegnum Íbúðalánasjóð heldur banka og sparisjóði.

Í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins  segir meðal annars:

Ein mikilvægasta aðgerðin við núverandi aðstæður er að lækka á ný lánshlutföll Íbúðalánasjóðs og lánsfjárhæðir. Sjóðurinn er markaðsleiðandi og síðasta hækkun lánshlutfalla kom undraskjótt fram í nýjum hækkunum á fasteignaverði sem bæði koma beint fram í hækkunum á neysluverðsvísitölu og síðan óbeint vegna áhrifa á einkaneyslu og eftirspurn.

Það er ekki skrítið að fasteignaverð hafi hækkað "undraskjótt" í kjölfar breytinga á hámarksláni og lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs.  Það er vegna þess að ástæða hækkunar fasteignaverðs var vegna endurkomu banka og sparisjóða með hömlulaus lán - í formi myntlána, blandaðra lána og sérstakra 100% lána til nýútskrifaðs ungs fólks- inn á íslenska húsnæðislánamarkaðinn.

Ástæðan var sem sé ekki tilvist Íbúðalánasjóðs - hvað þá breytinga á lánshlutfalli sem hafði hverfandi áhrif á höfuðborgasvæðinu. Fyrrgreind innkoma bankanna var nokkru áður en breytingar voru gerðar á hámarksláni Íbúðalánasjóðs.

Staðreynd málsins er nefnilega sú að eiginlegum hámarkslánum Íbúðalánasjóðs á höfuðborgarsvæðinu fækkaði milli mánaða þegar breytingarnar voru gerðar. Frá þessu sagði ég meðal annars í útvarpsviðtali síðast þegar Samtök atvinnulífsins voru að atast út í Íbúðalánasjóð:

Þenslan er fyrst og fremst í mjög dýru húsnæði, við sjáum það hjá fasteignamati ríkisins að þar eru, það er dýra húsnæðið sem er að hækka og, og valda þessari hækkun. 18 milljóna króna hámarkslán og hærra hámarkshlutfall hjá Íbúðalánasjóði hefur ekkert að segja í því, það fólk fjármagnar sín kaup með lánum frá bönkum. Ef við lítum á tölur fyrir mars þá lækkaði hlutfall lána Íbúðalánasjóðs á höfuðborgarsvæði þar sem að þenslan er og það dró einnig eða fækkaði lækkaði hlutfall hámarkslána sem veitt voru í mars, hlutfallslega lægra þá heldur en var í febrúar. Þannig að það er alveg ljóst, miðað við þær tölur sem við höfum á, frá okkar útlánum, að það eru ekki lán Íbúðalánsjóðs sem er að ýta undir þessa þenslu. Sökin liggur einhversstaðar annars staðar.

Þá má ekki gleyma því að lán Íbúðalánasjóðs eru verulega takmörkuð á virkum markaðssvæðum vegna viðmiðunar við brunabótamat, eins fram kemur í frétt á vef Íbúðalánasjóðs Brunabótamat skerðir oftast lánshlutfall Íbúðalánasjóðs . Hins vegar eru engin slík takmörkun á lánum bankanna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Samtök atvinnulífins ráðast að Íbúðalánasjóði - þegar sökin liggur annars staðar. Í þeim slag hafa samtökin reyndar reynt sögufölsun um atburðarrás í fasteignalánamálum árið 2004 - eins og lesa má í gamalli grein minni - Verðbólgudraugurinn býr ekki í Íbúðalánasjóði.

Að lokum til gamans þá ætla ég að beina sjónum að ummælum Jónínu Benediktsdóttur á bloggi hennar þar sem hún segir meðal annars:

Nú væla þeir hjá SA yfir því að Íbúðarlánasjóður sjái til þess að allir fái lán til húsakaupa en ekki eingöngu velunnarar bankanna. Væla yfir því að Íbúðalánasjóður heldur þó vöxtum í skefjum þannig að bankarnir geta ekki farið á flug með sína.

Svo mörg voru þau orð!


mbl.is Segja aðgerðir Seðlabanka skaða atvinnulíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband