Bjálvingarstuðulslánagrunnurinn!

Það var athyglisvert að kynna sér Bjálvingarstuðulsgrunninn, Íbúðagrunninn og Húsalánsgrunninn á fundum í Almanna- og Heilsumálaráðinu í síðustu viku.

Já, það var ekki leiðinlegt að sækja frændur vora í Færeyjum heim, þótt stoppið væri stutt og fundardagurinn langur og strangur. Reyndar er þetta í fyrsta sinn sem ég kem til Færeyja - sem er reyndar með ólíkindum - eftir að hafa gegnum tíðina flækst fram og til baka um Norðurlöndin allt frá Quarqatoq á Grænlandi til Karelíu í Finnlandi. Ekki seinna vænna.

Verkefnið sem ég er að vinna með sérfræðingi úr norska Húsbankanum fyrir færeyska Almanna- og heilsumálaráðið er spennandi - og framundan líklega tvær vinnuferðir til Færeyja. Vonandi get ég tekið einhverja frídaga í tengslum við annan hvorn fundinn til að skoða eyjarnar betur ásamt fjölskyldunni. Enda er þetta örskotstúr - klukkutími og korter með flugi frá Reykjavík til Vágar.

Það var reyndar við hæfi að gista í litlu, gömlu húsi í miðbæ Þórshafnar, en það var ekki pláss á hótelunum vegna stórrar ráðstefnu sem haldin var á sama tíma og fundarhöldin okkar. Það var notaleg tilbreyting að gista í 120 ára húsi - í stað venjulegu, stöðluðu hótelherbergjanna sem alls staðar eru eins.

Þá var sérstakt að éta skerpikjöt, þurrkaða grind, þurrsaltað grindarspik og soðnar kartöflur. Færeyska lambasteikin var nú samt betri.

Reyndar var ráðherralisti nýrrar ríkisstjórnar Íslands birtur meðan ég var í Færeyjum. Hitti Eið Guðnason sendiherra okkar í Færeyjum áður en ráðherralistinn var birtur - og rættist spá hans um ráðherraval held ég alveg.

Já, Bjálvingarstuðulslánagrunnurinn!

Það er upp á íslensku "húsaeinangrunarlánasjóðurinn".

Að lokum. Gústi tölvukall er væntanlega að koma mér aftur í tengingu við internetið heima - svo það verður styttra á milli blogga!  Af nógu er að taka!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband